Rússneska íshokkístjarnan Alexander Ovechkin ætlar á Vetrarólympíuleikana á næsta ári þó svo bandaríska NHL-deildin ætli ekki að leyfa leikmönnum að fara á leikana.
Ovechkin spilar með Washington Capitals í NHL-deildinni en hún verður í fullum gangi er ÓL fer fram.
„Ég ætla að fara því Rússland er mitt land og það vilja allir fara á leikana. Það er stærsta tækifæri allra íþróttamanna að fara á ÓL. Mér er alveg sama þó einhver segi við mig að ég geti ekki farið. Ég fer bara samt,“ sagði Ovechkin harður.
Hann vonast þó eftir því að geta farið í góðu og dreymir enn um að samkomulag náist svo allir leikmenn geti farið á leikana. Ekki bara þeir sem þora.
