Erlent

Hefja sóknina að Raqqa í næsta mánuði

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðgerðir Syrian Democratic Forces (SDF) til þess að umkringja Raqqa, höfuðvígi Íslamska ríkisins í Sýrlandi hafa gengið vel. Bandalagið stefnir að því að hefja sóknina gegn borginni snemma í næsta mánuði, en þeir eru studdir af Bandaríkjunum og öðrum ríkjum eins og Frakklandi.

SDF, sem er bandalag sýrlenskra Kúrda og Araba, hefur á undanförnum dögum náð bænum Karama, sem er sunnan megin við Efratánna og er markmiðið að ná bænum al-Tabqah og Tabqah-stíflunni vestur af Raqqa.

Samkvæmt frétt Reuters sækja SDF að Raqqa úr ýmsum áttum og eru þeir farnir að nálgast útjaðar borgarinnar.

Íslamska ríkið hefur þurft að gefa undan víða á undanförnum mánuðum, en þrjú mismunandi bandalög berjast gegn þeim í Sýrlandi og í Írak.

Írakar reyna nú að frelsa borgina Mosul í norðurhluta Írak, en fregnir hafa borist af miklu mannfalli meðal almennra borgara í loftárásum. Baráttan hefur þó tekið nokkra mánuði þar sem vígamenn ISIS tefja og hægja á sókninni með gildrum og leyniskyttum.

Í norðurhluta Sýrlands hefur SDF tekið stór svæði af ISIS-liðum og hefur króað Raqqa af, eins og kemur fram hér að ofan. Þá sækir stjórnarher Bashar al-Assad, með stuðningi Rússa og annarra, gegn ISIS-liðum úr vestri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×