Viðskipti innlent

Stofna félagið Wintris: „Þetta er mjög lýsandi fyrir okkar vöru“

Birgir Olgeirsson skrifar
Félagið Wintris ehf. er skrásett í Reykjavík.
Félagið Wintris ehf. er skrásett í Reykjavík. Vísir/Valli
Í dag er slétt ár liðið frá því að Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, greindi frá félaginu Wintris Inc., sem heldur utan um fjölskylduarf hennar, í ítarlegri stöðuuppfærslu á Facebook.

Nú er svo komið að Anna Sigurlaug er ekki sú eina sem á félag að nafni Wintris heldur stofnuðu félagarnir Guðbjörn Dan Gunnarsson og Gunnlaugur Arnar Elíasson nýverið félagið Wintris ehf.

Í samtali við Vísi segir Guðbjörn að um algjöra tilviljun sé að ræða, nafnið á þeirra félagi sé ekki skírskotun í félag Önnu Siguralaugar og alveg ótengt því sem hún og Sigmundur Davíð hafa tekið sér fyrir hendur.

Guðbjörn segir Wintris ehf. stofnað utan um vöru sem þeir eru með í þróun á hugbúnaðarsviði og tilkynningar sé að vænta í næsta mánuði um hana.

„Þetta er mjög lýsandi fyrir okkar vöru,“ segir Guðbjörn spurður hvers vegna nafnið Wintris varð fyrir valinu en segist ekki geta greint nánar frá því hver varan er að svo stöddu.

Nítján dögum eftir að Anna Sigurlaug greindi frá Wintris Inc. á Facebook fór í loftið viðtalið þar sem fréttamaður sænska fréttaskýringaþáttarins Uppdrag Granskning, Sven Bergmann, spurði Sigmund Davíð hvað hann gæti sagt honum um fyrirtæki sem heitir Wintris. Viðtalið var tekið í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík fjórum dögum áður en Anna Sigurlaug greindi frá félaginu á Facebook.

Svo fór að Sigmundur Davíð yfirgaf viðtalið þegar Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, settist við hlið Bergmann og spurði Sigmund hvers vegna hann hefði ekki sagt frá félaginu Wintris.

Sigmundur Davíð yfirgaf embætti forsætisráðherra vegna málsins og var boðað til kosninga til Alþingis í kjölfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×