Sport

Ari Bragi fékk skó úr gulli fyrir að slá Íslandsmet

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vilmundur Vilhjálmsson afhendir Ara Braga Kárasyni gullskóinn.
Vilmundur Vilhjálmsson afhendir Ara Braga Kárasyni gullskóinn. Mynd/FRÍ
Ari Bragi Kárason fékk sjaldgæfa skó að gjöf á dögunum en Frjálsíþróttasambandið segir frá merkilegri afhendingu á Reykjavíkurleikunum á dögunum.

Ari Bragi Kárason fékk þá afhentan gullskó íslenskra spretthlaupara þar sem að hann á nú annað af tveimur helstu spretthlaupsmetum Íslands eða Íslandsmetið í 100 metra hlaupi.

Ari Bragi setti nýtt Íslandsmet í 100 metra hlaupi þegar hann hljóp á 10,52 sekúndum í Hafnarfriði 16. Júlí 2016.

Vilmundur Vilhjálmsson var besti spretthlaupari Íslands fyrir fjórum áratugum og hann setti þá Íslandsmet í bæði 100 og 200 metra hlaupum auk þess að hlaupa 400 metrana á 47,1 sekúndum. Vilmundur hljóp 100 metrana hraðast á 10,3 sekúndum en 200 metrana hraðast á 21,1 sekúndu.

Vilmundur stundaði nám í Loughborough á áttunda áratugnum og var einn besti spretthlaupari á Bretlandseyjum á þeim tíma.

Þar æfðu millilengdahlaupararnir með spretthlaupurunum í styrktaræfingum og brekkusprettum og meðal æfingafélagana var Sebastian Coe, núverandi forseti Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, sem var Ólympíumeistari og Heimsmethafi í millilengdahlaupum.

Vilmundur  keppti með landsliðinu í fjölda ára og keppti á Evrópumeistaramótinu í Prag 1978.

Þegar Jón Arnar Magnússon sló met Vilmundar í 200 metra hlaupi þá gaf Vilmundur Jón Arnari gullskó en hann gyllti gömlu gaddaskóna sína og gaf Jóni annan skóinn.

Hinn hefur Vilmundur geymt þar til nýtt met yrði sett í 100 metra hlaupi. Það var síðan á RIG sem Vilmundur hitti Ara Braga, núverandi Íslandsmethafa og færði honum gullskóinn hinn síðari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×