Erlent

Þriggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir að sparka í flóttamann

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Myndband þar sem sjá mátti László fella mann sem hélt á barni fór víða og vakti mikla hneykslan.
Myndband þar sem sjá mátti László fella mann sem hélt á barni fór víða og vakti mikla hneykslan.
Ungverski tökumaðurinn Petra László sem náðist á mynd þar sem hún sparkaði til og brá fæti fyrir flóttamenn við Röszke í september árið 2015 hefur verið dæmd í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi fyrir verknaðinn.

László var að taka myndir í flóttamannabúðum í Roszke, skammt frá landamærum Serbíu þegar hún brá fæti fyrir flóttamann með barn í fanginu. Það náðist á myndband og síðar sást hún sparka í aðra flóttamenn.

Atvikið vakti hörð viðbrögð víða og var hún í kjölfarið rekin, en hún starfaði fyrir sjónvarpsstöðina N1TV. Hún baðst í kjölfarið afsökunar og sagðist ekki trúa að hún hafi gert það sem hún gerði.

Hún segir eitthvað hafa „brostið innra með sér“ þegar flóttamennirnir ruddust framhjá röð lögreglumanna. Hún táraðist í dómsal þar sem hún bar vitni á fimmtudag og sagðist myndu áfrýja dómnum.

„Þetta var allt búið eftir tvær sekúndur,“ sagði hún. „Allir voru öskrandi... þetta var mjög ógnvekjandi.“

Iles Nanasi, dómari í málinu, sagði hegðun László fara gegn samfélagslegum gildum og að ekkert gæfi til kynna að um sjálfsvörn hafi verið að ræða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×