Þór frá Þorlákshöfn átti ekki í neinum vandræðum með að valta yfir fyrstu deildar lið FSu, 104-68, þegar liðin mættust í átta liða úrslitum Maltbikars karla í körfubolta í kvöld.
Þórsarar leyfðu minni spámönnum að spreyta sig auk þess sem aðstoðarþjálfarinn Baldur Þór Ragnarsson spilaði fimmtán mínútur og skoraði fimm stig á fimmtán mínútum.
Ragnar Örn Bragason skoraði 20 stig fyrir Þórsara í kvöld og var stigahæstur sinna manna en heimamenn fengu 51 stig af bekknum og skoruðu allir liðsmenn Þórs nema einn.
Bandaríkjamaðurinn Terrence Motley var stigahæstur hjá FSu en hann skoraði fimmtán stig, tók átta fráköst og gaf tvær stoðsendingar.
Þórsarar fóru alla leið í bikarúrslitaleikinn í fyrra en þeir eru nú komnir aftur í Laugardalshöllina þar sem undanúrslitin og úrslitin fara fram þar sömu helgina. Auk Þorlákshafnarliðsins eru komin í undanúrslit Grindavík og KR.
Í Maltbikar kvenna var Skallagrímur síðasta liðið til að tryggja sér farseðil í Laugardalshöllina en það pakkaði saman KR, 78, 42, í kvöld. KR leikur í næst efstu deild en Skallagrímur er í toppbaráttu Domino's-deildarinnar.
Tavelyn Tillman var stigahæst Borgnesinga í kvöld með 24 stig en Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 20 stig fyrir Skallagrím.
Snæfell Haukar, Keflavík og Skallagrímur eru liðin sem verða í pottinum á morgun þegar dregið verður til undanúrslitanna.
Þór og Skallagrímur ekki í vandræðum með fyrstu deildar liðin

Tengdar fréttir

Meistarar KR hársbreidd frá því að falla úr leik í bikarnum gegn Hetti
Hetjuleg frammistaða 1. deildar liðsins dugði ekki á endanum gegn Íslands- og bikarmeisturum KR.