Ný heimsmynd Þorbjörn Þórðarson skrifar 17. janúar 2017 00:00 Viðtal við Donald Trump sem birtist samtímis í breska dagblaðinu The Times og hinu þýska Bild á mánudag er með nokkrum ólíkindum. Yfirlýsingar verðandi forseta Bandaríkjanna í viðtalinu benda til þess að hann sé tilbúinn að varpa fyrir róða alþjóðlegri samvinnu sem hefur tekið marga áratugi að móta og festa í sessi. Trump segir að Atlantshafsbandalagið (NATO) sé „úrelt“ því samstarfið hafi verið hannað fyrir svo mörgum árum, aðeins fimm aðildarríki greiði sanngjarnan hlut í kostnaði við rekstur bandalagsins og því hafi jafnframt mistekist að mæta hryðjuverkaógninni sem Vesturlönd glími við. Hann spáir því að fleiri ríki muni fylgja Bretum og segja sig úr Evrópusambandinu og gagnrýnir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, harðlega fyrir ætluð mistök Þýskalands við móttöku flóttamanna frá Sýrlandi. Donald Trump virðist ætla að marka sér þá stefnu að útganga Bretlands úr ESB hafi verið góð ákvörðun hjá þeim 52 prósentum Breta sem kusu með Brexit og að það sé skynsamlegt að fleiri ríki fari úr sambandinu. Anthony Gardner, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, lýsti síðastliðinn föstudag áhyggjum sem margir bera í brjósti um nýja stefnu stjórnvalda í Washington gagnvart ESB. Gardner sagði það „hámark heimskunnar“ og hreina „geggjun“ (e. lunacy) að varpa fyrir róða meira en hálfrar aldar samstarfi Bandaríkjanna við stofnanir Evrópusambandsins og verða einhvers konar „Brexit-klappstýra“ í Brussel. Skoðanir Trumps á vestrænni samvinnu vekja margar spurningar. Mun Ísland fylgja Þýskalandi og aðildarríkjum ESB að málum þegar varnar- og öryggismál eru annars vegar eða Bandaríkjamönnum? Hvaða afstöðu ætla íslensk stjórnvöld að móta sér ef upp kemur alvarleg togstreita milli stjórnvalda vestanhafs og annarra aðildarríkja NATO? Má vænta þess að Donald Trump vilji veikja varnarsamstarfið á vettvangi NATO enn frekar? Það er alvarlegt áhyggjuefni. Og það hefði verið fullkomlega óhugsandi fyrir nokkrum árum að forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir að NATO væri „úreltur“ samstarfsvettvangur. Það eru skrýtnir tímar fram undan og við blasir ný heimsmynd. Það mun án nokkurs vafa reyna meira á evrópska þjóðarleiðtoga að standa vörð um vestræna samvinnu á meðan skilaboðin frá Washington virðast ætla að verða jafn óútreiknanleg og raun ber vitni. Það verður krefjandi verkefni fyrir nýjan utanríkisráðherra að halda rétt á hagsmunum Íslands sem stofnaðila í NATO á sama tíma og forseti Bandaríkjanna dregur úr tiltrú á varnarsamstarfinu. Gott samband við Bandaríkin hefur verið leiðarljós í utanríkisstefnu Íslands um margra áratuga skeið. Á sama tíma er mikilvægt fyrir Ísland að rækja skyldur sínar sem stofnaðili NATO og viðhalda góðu sambandi við stjórnvöld í ríkjum beggja vegna Atlantsála og heilbrigðu sambandi við stofnanir Evrópusambandsins. Það verður flókin jafnvægislist og feilsporin gætu orðið dýrkeypt. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Brexit Donald Trump Forsetakosningar í Bandaríkjunum Þorbjörn Þórðarson Mest lesið Lögfræðingurinn sem gleymdi tilgangi laga Sigríður Svanborgardóttir Skoðun Hagnaðurinn sem við afsölum okkur: Af hverju salan á Íslandsbanka er samfélagslegt glapræði Karl Héðinn Kristjánsson Skoðun Munu Ísraelsmenn sprengja bifreið páfa í loft upp? Einar Baldvin Árnason Skoðun Þétting byggðar – nokkur mistök gjaldfella ekki stefnuna Samúel Torfi Pétursson Skoðun Breyta lífum til hins betra eða dvelja áfram í hýðum síns vetra? Tómas Ellert Tómasson Skoðun Stærð er ekki mæld í sentimetrum Sigmar Guðmundsson Skoðun Áður en íslenskan leysist upp Gamithra Marga Skoðun Að eiga sæti við borðið Grímur Grímsson Skoðun Íþróttir eru lykilinn Willum Þór Þórsson Skoðun Hverjum þjónar nýsköpunin? Halldóra Mogensen Skoðun
Viðtal við Donald Trump sem birtist samtímis í breska dagblaðinu The Times og hinu þýska Bild á mánudag er með nokkrum ólíkindum. Yfirlýsingar verðandi forseta Bandaríkjanna í viðtalinu benda til þess að hann sé tilbúinn að varpa fyrir róða alþjóðlegri samvinnu sem hefur tekið marga áratugi að móta og festa í sessi. Trump segir að Atlantshafsbandalagið (NATO) sé „úrelt“ því samstarfið hafi verið hannað fyrir svo mörgum árum, aðeins fimm aðildarríki greiði sanngjarnan hlut í kostnaði við rekstur bandalagsins og því hafi jafnframt mistekist að mæta hryðjuverkaógninni sem Vesturlönd glími við. Hann spáir því að fleiri ríki muni fylgja Bretum og segja sig úr Evrópusambandinu og gagnrýnir Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, harðlega fyrir ætluð mistök Þýskalands við móttöku flóttamanna frá Sýrlandi. Donald Trump virðist ætla að marka sér þá stefnu að útganga Bretlands úr ESB hafi verið góð ákvörðun hjá þeim 52 prósentum Breta sem kusu með Brexit og að það sé skynsamlegt að fleiri ríki fari úr sambandinu. Anthony Gardner, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Evrópusambandinu, lýsti síðastliðinn föstudag áhyggjum sem margir bera í brjósti um nýja stefnu stjórnvalda í Washington gagnvart ESB. Gardner sagði það „hámark heimskunnar“ og hreina „geggjun“ (e. lunacy) að varpa fyrir róða meira en hálfrar aldar samstarfi Bandaríkjanna við stofnanir Evrópusambandsins og verða einhvers konar „Brexit-klappstýra“ í Brussel. Skoðanir Trumps á vestrænni samvinnu vekja margar spurningar. Mun Ísland fylgja Þýskalandi og aðildarríkjum ESB að málum þegar varnar- og öryggismál eru annars vegar eða Bandaríkjamönnum? Hvaða afstöðu ætla íslensk stjórnvöld að móta sér ef upp kemur alvarleg togstreita milli stjórnvalda vestanhafs og annarra aðildarríkja NATO? Má vænta þess að Donald Trump vilji veikja varnarsamstarfið á vettvangi NATO enn frekar? Það er alvarlegt áhyggjuefni. Og það hefði verið fullkomlega óhugsandi fyrir nokkrum árum að forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir að NATO væri „úreltur“ samstarfsvettvangur. Það eru skrýtnir tímar fram undan og við blasir ný heimsmynd. Það mun án nokkurs vafa reyna meira á evrópska þjóðarleiðtoga að standa vörð um vestræna samvinnu á meðan skilaboðin frá Washington virðast ætla að verða jafn óútreiknanleg og raun ber vitni. Það verður krefjandi verkefni fyrir nýjan utanríkisráðherra að halda rétt á hagsmunum Íslands sem stofnaðila í NATO á sama tíma og forseti Bandaríkjanna dregur úr tiltrú á varnarsamstarfinu. Gott samband við Bandaríkin hefur verið leiðarljós í utanríkisstefnu Íslands um margra áratuga skeið. Á sama tíma er mikilvægt fyrir Ísland að rækja skyldur sínar sem stofnaðili NATO og viðhalda góðu sambandi við stjórnvöld í ríkjum beggja vegna Atlantsála og heilbrigðu sambandi við stofnanir Evrópusambandsins. Það verður flókin jafnvægislist og feilsporin gætu orðið dýrkeypt. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Hagnaðurinn sem við afsölum okkur: Af hverju salan á Íslandsbanka er samfélagslegt glapræði Karl Héðinn Kristjánsson Skoðun
Hagnaðurinn sem við afsölum okkur: Af hverju salan á Íslandsbanka er samfélagslegt glapræði Karl Héðinn Kristjánsson Skoðun