Það eru ýmsar ástæður fyrir því að tækifæri kemur fyrst núna. Í hans stöðu voru fyrir Ólafur Stefánsson, Alexander Petersson og Ásgeir Örn Hallgrímsson. Ekki beint auðveldustu mennirnir til að slá út og svo hefur Rúnar líka verið óheppinn með meiðsli á ferlinum.
Betri skot utan af velli
„Ég er þokkalega sáttur við mína frammistöðu en það er alltaf eitthvað sem maður getur tínt til. Ég væri til í að vera með kannski einu marki utan af velli meira í leik. Ekki bara mín vegna heldur af því að við þurftum á því að halda. Ég hef ekki verið alveg sáttur við skotin utan af velli en flest annað er ég þokkalega sáttur við,“ segir Rúnar en hvaða markmið setti hann fyrir mótið?
„Það var að komast áfram. Þriðja sætið væri það sem væri hægt að setja kröfu á og annað sætið væri frábært. Svo breytist mikið við það að Aron er ekki með. Ég hafði samt góða tilfinningu fyrir liðinu. Mér finnst vera góður taktur í liðinu og þegar við fáum Aron aftur inn þá verðum við fljótt komnir með hörkulandslið aftur. Ungu strákarnir lofa góðu og það er góður fílingur í þessu.“

Í kvöld bíður síðan úrslitaleikur gegn Makedóníumönnum og það er verkefni sem Rúnar bíður spenntur eftir að takast á við.
„Þeir eru með mjög gott lið og við þekkjum þá vel. Þeir eiga bestu hægri skyttu í heiminum í Kiril Lazarov og hann er líklega einn sá besti í sögunni. Annan eins skotmann er erfitt að finna. Mirkulovski er á miðjunni en ég spilaði með honum og hann er lifandi goðsögn í Skopje. Við þurfum klárlega að eiga okkar besta leik til að vinna þá. Vörnin og hraðaupphlaupin verða að koma hjá okkur,“ segir Rúnar en hvað með sóknina sem hefur ekki alltaf fundið taktinn?
„Þar þurfum við að bíta fastar frá okkur en við höfum verið að gera. Við erum að reyna að fínpússa sóknarleikinn. Erum að greina hvað við erum að gera vitlaust. Við erum að sækja helst til of mikið inn á miðjuna og tímasetningar ekki alveg réttar. Þetta er allt lærdómsferli hjá okkur. Fæstir hafa spilað mikið saman og við þurfum að halda áfram að finna taktinn.“
Peppaðir fyrir þennan leik
Það eru engin önnur tækifæri eftir þennan leik. Núna verður liðið að standa í lappirnar í 60 mínútur og klára leikinn.
„Við börðumst hart fyrir því að komast hingað og að vera á þessu móti hefur verið gaman. Það munar bara tveimur mörkum að við séum með fleiri stig. Þetta er eins og það er. Við erum peppaðir í þennan leik og maður er í sportinu fyrir svona augnablik. Mér finnst ekki vera neitt stress og hef enga trú á því að einhver fari á taugum. Er maður lítur til baka yfir ferilinn man maður best eftir því sem maður gerði með landsliðinu. Bæði innan og utan vallar.“
Ekki missa af neinu sem gerist á HM í Frakklandi. Vísir er með öflugt fréttateymi á mótinu sem færir ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).