Erlent

Trump reiður út í Meryl Streep

Samúel Karl Ólason skrifar
Meryl Streep og Donald Trump.
Meryl Streep og Donald Trump. Vísir/Getty
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, virðist mjög svo ósáttur við Meryl Streep eftir ræðu hennar á Golden Globe verðlaunahátíðinni í nótt. Í ræðunni sendi hún Trump tóninn fyrir að niðurlægja og gera lítið úr fólki.

„Þegar svona valdamikill maður sýnir öðru fólki svona mikla vanvirðingu mun það bara hafa það í för með sér að fólk mun almennt sýna öðrum meiri vanvirðingu. Ofbeldi skapar einnig bara meira ofbeldi. Þegar þeir valdamiklu nota aðstöðu sína til að gera lítið úr öðrum töpum við öll,“ sagði Streep

Hún nefndi sérstaklega atvik þegar Trump virtist hæðast að fötlun blaðamanns.

Sjá einnig: Stjörnurnar táruðust þegar Meryl Streep hélt tilfinningaþrungna ræðu á Golden Globe (Hægt er að sjá ræðu Streep hér)

Trump tísti um ræðuna nú skömmu fyrir hádegi þar sem hann segir Meryl Streep hafa ráðist á sig, þrátt fyrir að þekkja sig ekki. Hann segir einnig að hún sé „ein ofmetnasta leikkona Hollywood“ og handbendi Hillary Clinton, sem hafi tapað „stórt“.

Þá segir Trump ekki að hann hafi hæðst að fötlun blaðamannsins.

Þess í stað hafi hann einfaldlega verið að leika blaðamanninn, sem hafi breytt sextán ára gamalli frétt til að varpa neikvæðu ljósi á Trump. Það segir Trump að sé enn eitt dæmið um óheiðarleika fjölmiðla.

Blaðamaðurinn Serge Kovaleski skrifaði grein fyrir Washington Post árið 2001 þar sem hann hélt því fram að lögreglan hefði handsamað og yfirheyrt einstaklinga sem fögnuðu hryðjuverkaárásunum í New York í september 2001.

Kovaleski sagði að hann hefði rætt við fjölda íbúa New Jersey á sínum tíma, en hann mundi ekki nægilega vel eftir svörum þeirra, enda væru fjórtán ár liðin.

Trump hafði þá nýverið haldið því fram að þúsundir múslima í New Jersey hefðu fagnað árásunum. Fjölmiðlar hafa ekki fundið neinar sannanir fyrir því að staðhæfing Trump sé rétt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×