Erlent

Baghdadi enn á lífi þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að ráða hann af dögum

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins.
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins. Vísir/AFP
Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum telja að Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins, sé enn á lífi. Ekki er vitað hvar hann er, en síðast var vitað um hann í Mosul. Árið 2014 lýsti hann yfir stofnun ISIS í Mosul og er sú yfirlýsing eina myndbandið sem hefur verið birt af honum. Bandaríkin hafa ítrekað gert tilraunir til að ráða hann af dögum.

Peter Cook, talsmaður Pentagon, sagði CNN að mikið væri lagt í að finna hann. Bandaríkin hafa fellt fjölda yfirmanna ISIS á undanförnum árum og mánuðum en Cook sagði Baghdadi vera einangraðan.

„Hann á erfitt með að finna ráðgjafa og fólk til að tala við því að margir þeirra eru ekki lengur með okkur,“ hefur AFP fréttaveitan eftir Cook.

Í nóvember bárust fregnir af því að því að Baghdadi svæfi með sprengjubelti utan um sig af ótta við að vera handsamaður. Þá var talið að hann hefði yfirgefið Mosul og væri við landamæri Sýrlands í Nineveh héraði í Írak.

Fyrr í þessum mánuði hækkuðu Bandaríkin verðlaunaféð til höfuðs Baghdadi upp í 25 milljónir dala. Það er rúmlega tvöföldun.

„Ef við fáum tækifæri til þess viljum við nota hvert slíkt til að ná fram því réttlæti sem hann á skilið,“ sagði Cook.

Íslamska ríkið hefur tapað stórum hluta af yfirráðasvæði sínu frá því að stofnun Kalífadæmisins var lýst yfir árið 2014 og sótt er gegn þeim á mörgum vígstöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×