Fótbolti

Emil og félagar sóttu sigur til Bergamo | Juventus vann grannaslaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil skýlir boltanum í leiknum gegn Atalanta í dag.
Emil skýlir boltanum í leiknum gegn Atalanta í dag. vísir/getty
Emil Hallfreðsson var í byrjunarliði Udinese sem vann 1-3 sigur á Atalanta á útivelli í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Þetta var annar sigur Udinese í röð en liðið er í 12. sæti deildarinnar með 21 stig.

Atalanta var miklu meira með boltann og átti fleiri skot en það voru gestirnir sem voru beinskeyttari. Duván Zapata, Seko Fofana og Cyril Théréau skoruðu mörk Udinese. Emil var tekinn af velli á 52. mínútu.

Juventus vann grannaslaginn gegn Torino með þremur mörkum gegn einu.

Andrea Belotti kom Torino yfir á 16. mínútu en Gonzalo Higuaín jafnaði metin 12 mínútum síðar.

Staðan var 1-1 í hálfleik og allt fram á 82. mínútu þegar Higuaín skoraði sitt annað mark. Miralem Pjanic gulltryggði svo sigur Juventus með marki í uppbótartíma.

Juventus er nú með sjö stiga forskot á Roma og AC Milan á toppi deildarinnar. Þau eiga þó bæði leik til góða á meistarana.

Dries Mertens skoraði þrennu þegar Napoli burstaði Cagliari, 0-5, á útivelli. Marek Hamsik og Piotr Zielinski voru einnig á skotskónum fyrir Napoli sem er í 4. sæti deildarinnar.

Þá vann Chievo 0-2 útisigur á Palermo og Bologna og Empoli gerðu markalaust jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×