Erlent

Aleppo að falli komin

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórnarherinn hefur sótt hratt fram í borginni.
Stjórnarherinn hefur sótt hratt fram í borginni. Vísir/AFP
Stjórnarher Sýrlands hefur sótt hart inn á yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Aleppo í Sýrlandi á síðustu dögum og vikum. Nú er borgin að falli komin og hafa uppreisnarmenn misst rúmlega 90 prósent af yfirráðasvæði sínu á innan við mánuði. Rússar segja 2.200 uppreisnarmenn hafa gefist upp.

Þá hafa um hundrað þúsund almennra borgara flúið undan átökunum, en talið er að tugir þúsunda haldi enn til inn á því litla sem eftir er af yfirráðasvæði uppreisnarmanna.

Forsvarsmaður Syrian Observatory for Human Rights, sem rekur umfangsmikið net uppljóstrara í Sýrlandi, segir orrustuna um Aleppo vera lokið. Það sé einungis tímaspursmál hvenær herinn vinni fullnægðarsigur.

Borginni hefur í raun verið skipt upp í tvo hluta í fjögur ár. Stjórnarherinn hefur stjórnað vesturhluta hennar og uppreisnarmenn austurhlutanum. Stjórnarhernum tókst þó að brjótast í gegnum víglínurnar með hjálp sjálfboðaliða frá Íran og öðrum löndum og loftárásum Rússa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×