Viðskipti erlent

Innreið tölvuleikja í Facebook Messenger

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Pac-Man er einn aðgengilegra leikja í Facebook Messenger.
Pac-Man er einn aðgengilegra leikja í Facebook Messenger. Mynd/skjáskot
Instant Games nefnist nýjasta viðbótin við skilaboðaforritið Face­book Messenger. Með uppfærslunni verður hægt að keppa við þá sem maður spjallar við í tölvuleikjum á borð við Pac-Man, Galaga, Words with Friends og Space Invaders.

Slíkt hið sama var áður hægt að gera í litlum körfuboltaleik sem falinn var í forritinu. Instant Games-viðbótin fór í loftið í gær í þrjátíu löndum. Ísland er þó ekki eitt þeirra eftir því sem Fréttablaðið kemst næst.

Til að byrja með verða leikirnir sautján talsins og eru framleiðendur þeirra til að mynda Konami, King og Zynga.

Allir leikirnir eru kóðaðir í HTML5 og því þarf ekki að hlaða þeim niður í snjallsímann líkt og þeir væru stök snjallforrit.

„Við trúum því að þessi nýi vettvangur fyrir tölvuleiki hafi í för með sér nýjar og einstakar upplifanir. Þær munu gleðja og skemmta spilurum um allan heim,“ segir í yfirlýsingu frá Kimihiro Horiuchi, markaðsstjóra Konami. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×