Erlent

Aleppo gæti orðið „risastór grafreitur“

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst 34 borgarar eru sagðir hafa látið lífið í borginni í dag.
Minnst 34 borgarar eru sagðir hafa látið lífið í borginni í dag. Vísir/EPA
Sameinuðu þjóðirnar óttast að sókn stjórnarhers Sýrlands í Aleppo muni koma verulega niður á almennum borgurum. Stephen OBrien frá mannúðarmáladeild SÞ segir að borgin gæti orðið „risastór grafreitur“. Stjórnarherinn og bandamenn hafa nú tekið rúman þriðjung af yfirráðasvæði uppreisnarmanna í austurhluta Aleppo frá því sóknin hófst um síðustu helgi.

Samkvæmt BBC hafa minnst 34 borgarar fallið í loftárásum og vegna skota stórskotaliðs í dag.

Yfirlit yfir sókn stjórnarhersins.Vísir/GraphicNews
OBrien biðlar til allra aðila sem koma að átökunum að gera allt sem þeir geta til að vernda almenna borgara og tryggja aðgang góðgerðasamtaka að borginni. Þetta sagði hann á neyðarfundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í dag.

Talið er að minnst 25 þúsund manns hafa flúið frá yfirráðasvæði uppreisnarmanna á síðustu dögum. Undanfarnar vikur hafa fjölmargar loftárásir verið gerðar á svæðinu og búa almennir borgarar við mjög svo erfiðar aðstæður. Talið er að um 90 þúsund manns haldi nú til á svæðinu.

Borgarar hafa einnig fallið á yfirráðasvæði ríkisstjórnarinnar þar sem uppreisnarmenn hafa meðal annars skotið eldflaugum þangað.

Rússneski herinn hefur gefið út að þeir séu tilbúnir til að fylgja bílalestum góðgerðasamtaka inn á svæðið sem stjórnarherinn hefur tekið, en SÞ hafa ekki svarað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×