„Við erum að vinna okkar eigið bygg frá grunni. Við ræktum það á akri bara nokkra kílómetra frá bænum okkar og sjáum um að sá fræjum, rækta og vinna úr bygginu. Oft er bygg ræktað einhvers staðar, svo flutt til Þýskalands þar sem það er maltað ásamt byggi af mörgum ökrum og þá er upphaflega bragðið horfið. Við viljum varðveita það,“ segir Snævar.

„Við stefnum að því að byrja að framleiða í lok haustsins 2017. Viskí er náttúrulega bara eimaður sterkur bjór og er alltaf sett á tunnu í að minnsta kosti þrjú ár. Það er því stefnt að því að þetta verði tilbúið fyrir markaðinn árið 2021,“ segir Snævar.
Síðasta skrefið í að fjármagna framleiðsluna er hópfjármögnun á síðunni Indiegogo. Mánuður er eftir af hópfjármögnuninni og hafa nú þegar safnast um 11.900 dollara, eða um 1,3 milljónir króna. Það eru 30 prósent af fjármagninu sem þörf er á.
„Hópfjármögnunin hjálpar okkur alveg gífurlega, við höfum möguleika á að fá lán í gegnum bankann þannig að ef við náum ekki markmiðinu með söfnuninni getum við þó haldið áfram. Bankinn er mjög jákvæður fyrir þessu verkefni hjá okkur, en sú leið er aðeins erfiðari fyrir okkur,“ segir Snævar.
Stefnt er að alþjóðlegri sölu. „Við erum ekki búin að klára neina samninga, en við stefnum á sölu á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum árið 2022.“
Hér má kynna sér hópfjármögnunina betur.