Handbolti

Tólf íslensk mörk þegar Kristianstad endurheimti toppsætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar Freyr, Ólafur og Gunnar Steinn í góðum gír á landsliðsæfingu.
Arnar Freyr, Ólafur og Gunnar Steinn í góðum gír á landsliðsæfingu. vísir/hanna
Íslendingaliðið Kristianstad bar sigurorð af Lugi, 31-25, í toppslag í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld. Með sigrinum endurheimti Kristianstad toppsætið í deildinni.

Gunnar Steinn Jónsson, Ólafur Guðmundsson og Arnar Freyr Arnarsson stóðu fyrir sínu og skoruðu samtals tólf mörk í leiknum.

Ólafur skoraði sex mörk úr tíu skotum og fékk tvær tveggja mínútna brottvísanir. Gunnar Steinn skoraði fimm mörk úr 11 skotum og gaf tvær stoðsendingar og Arnar Freyr skoraði úr eina skotinu sem hann tók í leiknum.

FH-ingarnir Daníel Freyr Andrésson og Magnús Óli Magnússon og félagar þeirra í Ricoh voru hársbreidd frá því að ná í stig gegn Skövde á útivelli.

Ricoh var yfir, 30-31, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en heimamenn skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og tryggðu sér sigurinn. Lokatölur 32-31, Skövde í vil.

Daníel Freyr varði 11 skot í markinu, eða 26% af þeim skotum sem hann fékk á sig. Magnús Óli skoraði eitt mark.

Skövde og Ricoh eru jöfn að stigum í 9.-10. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×