Körfubolti

Ætti núna að eiga nóg fyrir sautján systkini sín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Adams.
Steven Adams. Vísir/Getty
Steven Adams, miðherji Oklahoma City Thunder, er búinn að framlengja samning sinn við félagið og þarf ekki mikið að kvarta yfir launaseðlinum sínum næstu fjögur árin.

Oklahoma City Thunder mun borga honum hundrað milljónir dollara á næstu fjórum árum eða 11,2 milljarða íslenskra króna.

Hinn 23 ára gamli Steven Adams hefur spilað með Oklahoma City Thunder frá 2013 en hann var valinn tólfti í nýliðavalinu 2013.

Steven Adams hefur vaxið og dafnað hjá Thunder en hann var með 8,0 stig, 6,7 fráköst og 1,1 varið skot að meðaltali í fyrra.

Í fyrstu þremur leikjunum á þessu tímabili en Steven Adams með 13,0 stig og 9,7 fráköst að meðaltali.

Þetta er mikil launahækkun fyrir Steven Adams sem er búinn að fá 10 milljónir dollara samanlagt fyrir fyrstu fjögur árin sín í deildinni. Hann tífaldar því launin sín með þessum samningi.

Risastór fjölskylda Steven Adams ætti að geta notið góðs af nýja samningi kappans en hann er yngstur af átján systkinum sem faðir hans átti með fimm mismunandi konum.

Ein systir hans er kúluvarparinn Valerie Adams sem er tvöfaldur Ólympíumeistari og fjórfaldur heimsmeistari.

Bakvörðurinn Victor Oladipo fékk einnig nýjan samning hjá Oklahoma City Thunder en hann fær 84 milljónir dollara fyrir fjögur ár.

Oklahoma City Thunder tryggði það með þessum samningum að hvorki Steven Adams né Victor Oladipo geta nú kannað markaðinn næsta sumar þegar gömlu samningar þeirra áttu að renna út.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×