Erlent

ESA: Schiaparelli spakk líklegast eftir brotlendingu

Atli Ísleifsson skrifar
Myndirnar eru taldar sýna að eldsneytistankur Schiaparelli hafi sprungið þegar farið brotlenti.
Myndirnar eru taldar sýna að eldsneytistankur Schiaparelli hafi sprungið þegar farið brotlenti. Vísir/AFP
Evrópska geimvísindastofnunin ESA hefur greint frá því að geimfarið Schiaparelli hafi að öllum líkindum brotlent á reikistjörnunni Mars og síðan sprungið.

Myndir sem teknar eru úr gervihnetti Bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, sem er á sporbaug um Mars, eru sagðar sýna hvernig Schiaparelli hrapaði stjórnlaust tvo til fjögurra kílómetra leið áður en það skall á yfirborð Mars.

Myndirnar eru einnig taldar sýna að eldsneytistankur Schiaparelli hafi sprungið þegar farið brotlenti.

ESA missti sambandið við geimfarið á miðvikudaginn þegar það nálgaðist yfirborð Mars. Geimfarið sendi gögn til stjórnstöðvarinnar alveg þar til 50 sekúndur voru í áætlaða lendingu.

Sérfræðingar segja þó að þau gögn sem Schiaparelli náði að senda til jarðar muni engu að síður nýtast við geimferðir framtíðar.

Schiaparelli var ætlað að prufukeyra nýja tækni sem átti að notast við í þróaðra verkefni árið 2020.

Nánar má lesa um Schiaparelli á vef Stjörnufræðivefsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×