Donald Trump, forsetaefni Repúblikana, segir að utanríkisstefna Hillary Clinton vegna Sýrlands muni verja til þess að þriðja heimsstyrjöldin muni brjótast út.
Gagnrýndi hann harkalega tillögur Clinton um að koma á flugbannsvæði yfir Sýrlandi sem sumir telja að muni leiða til átaka við rússneskar herþotur sem stundað hafa miklar loftárásir í Sýrlandi undanfarna mánuði.
„Þetta endar með þriðju heimsstyrjöldinni vegna Sýrlands ef við hlustum á Hillary Clinton,“ sagði Trump við blaðamenn á golfvelli sínum í Miami.
Varaði hann við því að ef tillögur Clinton um flugbannsvæði verði að veruleika myndi átökin í Sýrlandi umbreytast þannig að Bandaríkin þyrftu að takast á við Sýrland, Rússland og Íran.
Herforingjar í Bandaríkjunum hafa varað við því að ætli Bandaríkin að ná yfirráðum yfir lofthelgi Sýrlands muni það þýða átök við Rússa og Írana.
Trump kvartaði einnig yfir því að Repúblikanaflokkurinn væri ekki sameinaður á bak við sig en framámenn í flokknum hafa margir hverjir neitað að styðja Trump.
„Ef flokkurinn væri sameinaður á bak við mig gætum við ekki tapað,“ sagði Trump. Mjög hefur hallað undan fæti hjá Trump á undanförnum vikum. Svo mikið að talið er víst að Hillary Clinton verði næsti forseti Bandaríkjanna. Kosið verður 8. nóvember.

