Körfubolti

NBA: Draumabyrjun Dwyane Wade með Chicago Bulls | Myndbönd

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade gat ekki byrjað mikið betur í fyrsta leik sínum með Chicago Bulls í NBA-deildinni en hann gerði í nótt. Dwight Howard fagnaði líka í frumraun sinni með Atlanta Hawks. San Antonio Spurs byrjar tímabilið á tveimur sigurleikjum.

Dwyane Wade skoraði 22 stig og var næststigahæstur í liði Chicago Bulls sem vann 105-99 heimasigur á Boston Celtics. Jimmy Butler skoraði 24 stig.

Dwyane Wade hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum í leiknum en hann skoraði samtals sjö þrista á öllu síðasta tímabili þegar hann var leikmaður Miami Heat.

Wade spilaði í þrettán tímabil með Miami Heat en samdi öllum að óvörum við Bulls í sumar. Wade var auk stiganna með 6 fráköst og 5 stoðsendingar og Chicago vann með 15 stigum þegar hann var inná.

Taj Gibson bætti við 18 stigum og 10 fráköstum en hjá Boston var Isaiah Thomas stigahæstur með 25 stig, Avery Bradley skoraði 16 stig og Jae Crowder var með 14 stig.

Dwight Howard tók 19 fráköst auk 11 stiga í fyrsta leik sínum með Atlanta Hawks og Atlanta-liðið nýtti sér það framlag vel og vann 114-99 sigur á Washington Wizards. Paul Millsap var atkvæðamestur í stigaskoruninni með 28 stig og Tim Hardaway Jr. kom með 21 stig inn af bekknum. Markieff Morris var stighæstur hjá Washington með 22 stig.

Kawhi Leonard skoraði 30 stig í öðrum leiknum í röð og San Antonio Spurs varð fyrsta lið deildarinnar til að vinna tvo leiki. Spurs vann þá 102-94 sigur á Sacramento Kings á útivelli.

Kawhi Leonard, skoraði 35 stig í stórsigri á Golden State í fyrsta leik, en nú var hann með 30 stig, 5 stoðsendingar og 5 stolna bolta. LaMarcus Aldridge kom næstur með 16 stig. DeMarcus Cousins var með 37 stig og 16 fráköst fyrir Sacramento-liðið.

Reynsluboltarnir Pau Gasol (7 stig) og Tony Parker (4 stig) voru aðeins með 11 stig saman og liðið tapaði frekar illa þeim tíma sem þeir voru inná.

Blake Griffin og Chris Paul voru allt í öllu þegar Los Angeles Clippers vann 114-106 sigur á Portland Trail Blazers. Griffin var með 27 stig og 13 fráköst en Paul skoraði líka 27 stig og bætti við 5 stoðsendingum og 5 fráköstum. Damian Lillard var með 29 stig og 10 fráköst hjá Portland og Maurice Harkless skoraði 23 stig.



Öll úrslitin í NBA-deildinni í nótt:

Portland Trail Blazers - Los Angeles Clippers    106-114    

Sacramento Kings - San Antonio Spurs    94-102    

Chicago Bulls - Boston Celtics    105-99    

Atlanta Hawks - Washington Wizards    114-99

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×