Körfubolti

Westbrook: Evrópsku liðin tíu sinnum betri en NBA-liðin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook.
Russell Westbrook. Vísir/Getty
Russell Westbrook, leikstjórnandi Oklahoma City Thunder, fékk að kynnast evrópskum körfubolta á þessu undirbúningstímabili en Thunder mætti þá spænsku liðunum Real Madrid og Barcelona.

Oklahoma City Thunder tapaði fyrir Real Madrid í framlengingu en vann svo nauman þriggja stiga sigur á Barcelona. Westbrook var með 18 stig og 4 stoðsendingar á 22 mínútum á móti Real Madrid en 12 stig og 5 stoðsendingar á 21 mínútu á móti Barca.

Russell Westbrook var sérstaklega hrifinn af sóknarleik spænsku liðanna og hann var líka óhræddur við að hrósa þeim í viðtölum við fjölmiðla.

NBA-liðin eru full af frábærum íþróttamönnum sem geta flestir búið sér til sitt skot án mikill vandræða en að mati Westbrook eiga þeir ekki möguleika á að leika eftir liðsamvinnuna í evrópsku liðunum.

„Ég held að fólk hér átti sig ekki á því hvað það er að reyna að verjast evrópskum liðum. Sóknarleikur þeirra er tíu sinnum betri en sóknarleikur NBA-liðanna af því að þeir hreyfa sig miklu meira,“ sagði Russell Westbrook.

„Leikmennirnir í Evrópu hreyfa sig mun meira en eru ekki eins hæfileikaríkir. Þeir þurfa því að finna aðrar leiðir til að skora,“ sagði Westbrook.

Það eru örugglega ekki allir sammála Russell Westbrook en hann hefur þó margt til síns máls. Liðsamvinna hjá evrópsku liðunum er oft mikið augnakonfekt. Þar er minna um háloftabolta og þrumutroðslur en hinsvegar meira um samvinnu á milli allra fimm leikmanna liðsins inn á vellinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×