Erlent

Segja loftárás hafa verið gerða á bílalestina

Samúel Karl Ólason skrifar
18 féllu í árásinni á bílalestina.
18 féllu í árásinni á bílalestina. Vísir/AFP
Sameinuðu þjóðirnar segja ljóst að loftárás hafi verið gerð á bílalest Rauða hálfmánans við Aleppo í Sýrlandi í síðasta mánuði. Sérfræðingar SÞ greindu gervihnattarmyndir af skemmdunum en 18 manns létu lífið.

Bandaríkin hafa sakað Rússa um að hafa gert loftárás á bílalestina en Rússar neita því og segja uppreisnarmenn hafa ráðist á hana með sprengjuvörpum. Sameinuðu þjóðirnar segja mögulegt að árásin sé stríðsglæpur.

Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki sakað neinn um að gera árásina.

Sjá einnig: Rússar segja vopnaða uppreisnarmenn hafa ferðast með bílalestinni.

Samkvæmt frétt BBC hefur Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, skipað nefnd sem á að rannsaka árásina. Hann hefur lýst henni sem „grimmilegri“ og að hún virðist hafa verið framin vísvitandi.

Nokkrum dögum áður en árásin var gerð hafði bandalag Bandaríkjanna fellt 62 sýrlenska hermenn í loftárás, sem Bandaríkin sögðu að hefði verið gert fyrir slysni. Þá féll vopnahlé Bandaríkjanna og Rússlands um sjálft sig í kjölfar árásarinnar.

Síðan þá hafa fjölmargar loftárásir verið gerðar á yfirráðasvæði uppreisnarmanna í Aleppo, þar sem talið er að um 275 þúsund borgarar sitji fastir. Minnst 420 borgarar hafa fallið og rúmlega þúsund eru særðir.

Stjórnarherinn er nú sagður undirbúa sókn inn í Aleppo.


Tengdar fréttir

Segir Rússagrýluna hræðsluáróður

Sendiherra Rússlands á Íslandi segir að ekki eigi að láta hræðsluáróður um Rússagrýlu hafa áhrif á samstarf Rússa og Íslands.

Ýjar að því að Rússar fremji stríðsglæpi

Utanríkisráðherra Bretlands veltir því fyrir sér hvort Rússlandsher gerist sekur um stríðsglæpi. Bílalest með nauðsynjavörum varð fyrir árás á leið til borgarinnar Aleppo í Sýrlandi. Rússar neita ábyrgð og kenna Bandaríkjamönnum

Varði árásirnar á Aleppo

Bandaríkin hlífa hryðjuverkasamtökunum Jabhat Fateh al-Sham, áður þekkt sem al-Nusra Front, í tilraunum sínum til að steypa Bashar al-Assad Sýrlandsforseta af stóli. Þetta fullyrti Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í viðtali við BBC í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×