Erlent

Segjast ekki hafa gert árásir á bílalestina

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Yfirvöld í bæði Rússlandi og Sýrlandi segjast ekki hafa gert loftárásir á bílalest Sameinuðu þjóðanna og Rauða hálfmánans í Sýrlandi. Þess í stað segja Rússar að kveikt hafi verið í farmi bílanna. Um tuttugu starfsmenn Rauða hálfmánans létu lífið.

Hin meinta árás var gerð í gær á bílalestina þar sem hún var stödd í bænum Urum al-Kubra. Í bílalestinni voru hjálpargögn fyrir um 78 þúsund manns og eyðilögðust 18 bílar af 31. Einnig skemmdist vöruskemma Hjálparstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Hjálparstarfsmenn voru með leyfi frá bæði stjórnarhernum og uppreisnarmönnum og voru að koma matvælum og öðrum nauðsynjum til íbúa í og við borgina Aleppo. Sameinuðu þjóðirnar hafa stöðvað hjálparstarfsemi sína í Sýrlandi.

Á vef Tass fréttaveitunnar, sem rekin er af rússneska ríkinu, er haft eftir Igor Konashenkov, talsmanni Varnarmálaráðuneytis Rússlands, Rússar hafi fylgst með bílalestinni um skeið með drónum en hafi hætt því þegar hún fór yfir á yfirráðasvæði uppreisnarhópa. Því hafi uppreisnarhóparnir verið þeir einu sem vissu um bílalestina.

Hann segir að myndbönd af bílalestinni hafi verið skoðuð gaumgæfilega og þar hafi engin ummerki loftárása fundist. Það er holur eftir sprengjubrot né skemmdir á bílum og húsum vegna höggbylgna frá sprengingum.

„Myndböndin sýna beinar afleiðingar þess að kveikt hafi verið í farmi bílanna og atvikið gerðist, skringilega, á sama tíma og sókn uppreisnarmanna í Aleppo,“ segir Konashenkov. Hluta myndbandanna sem um ræðir má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir

Bílalestin var að flytja mat til tugþúsunda manna

Bílalest Sameinuðu þjóðanna, sem var að flytja hjálpargögn til svæðis sem er á valdi uppreisnarmanna skammt frá Aleppó í Sýrlandi, varð fyrir loftárás í gær af hálfu sýrlenskra eða rússneskra herflugvéla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×