Fótbolti

Simeone sagði Gameiro að hann væri kostur númer tvö á eftir Diego Costa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kevin Gameiro er búinn að skora tvö deildarmörk fyrir Atlético.
Kevin Gameiro er búinn að skora tvö deildarmörk fyrir Atlético. vísir/getty
Franski landsliðsframherjinn Kevin Gameiro segist hafa valið Atlético Madríd fram yfir Barcelona þegar kom að því að yfirgefa Sevilla í sumar.

Gameiro var sterklega orðaður við Spánarmeistarana í sumar en hann vildi komast frá Sevilla eftir að raða þar inn mörkum og vinna Evrópudeildina þrjú ár í röð.

Börsungar náðu ekki að landa Frakkanum heldur ákvað hann að fara til Atlético en Diego Simeone og hans menn borguðu ríflega 30 milljónir evra fyrir markahrókinn.

„Sá möguleiki var í stöðunni fyrir mig að fara til Barcelona,“ segir Gameiro í viðtali við Cadena COPE, en hann er búinn að skora tvö mörk í sex deildarleikjum fyrir Atlético.

„Það var samt alveg klárt hjá mér að ég vildi fara til Atlético eftir að félagið hafði samband við mig.“

„El Cholo [Diego Simeone] hringdi í mig og sagðist vilja fá Diego Costa aftur en það væri erfitt og ég væri næsti kostur. Nú er ég í Madrid og það er aðalatriðið,“ segir Kevin Gameiro.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×