Erlent

Segjast hafa skotið niður ísraelska herþotu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, segist hafa skotið niður ísraelska herþotu og dróna við landamæri ríkjanna. Ísraelar þvertaka fyrir að það hafi gerst. Þeir segja Sýrlendinga hafa skotið tveimur flugskeytum á loft en ekki hitt neitt.

Fyrr í nótt lenti sprengja frá Sýrlandi á yfirráðasvæði Ísrael í Gólanhæðum. Eftir það gerðu Ísraelar loftárásir á stórskotalið stjórnarhers Sýrlands við landamærin. Það sama gerðist á laugardaginn. Loftárásirnar í nótt voru þær fjórðu frá 4. september.

Varnarmálaráðuneyti Sýrlands gaf út tilkynningu í ríkismiðli landsins þar sem því var haldið fram að þotan og dróninn hefðu verið skotin niður. Þeir saka Ísrael um að styðja við hryðjuverkasamtök með aðgerðum sínum.

Sýrland og Ísrael hafa tæknilega verið í stríði í áratugi, en Ísrael hertók Gólanhæðirnar af Sýrlandi í Sex daga stríðinu svokallaða árið 1967.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×