Erlent

Angelina Jolie biður milljónum fórnarlamba stríðsins í Sýrlandi griða

Heimir Már Pétursson skrifar
Angelina Jolie kvikmyndaleikkona og sérstakur sendiherra Sameinuðu þjóðanna skorar á leiðtoga heims að binda enda á þjáningar milljóna barna, kvenna og karla í stríðinu í Sýrlandi. Greina þurfi rót stríðsins og koma fram með lausnir.

Angelina Jolie heimsótti Azraq flóttamannabúðirnar í Jórdaníu í dag þar sem rúmlega 55 þúsund Sýrlendingar hafast við eftir að hafa flúið blóðbaðið í heimalandinu.

Leikkonan fræga sem er sérlegur sendiherra Sameinuðu þjóðanna í málefnum barna ræddi við flóttafólk um aðstæður þess og stjórnendur búðanna og sendimenn Sameinuðu þjóðanna um þá erfiðleika sem fylgja flóttamannastraumnum og aðhlynningu flóttafólksins.

En það eru ekki allir svo lánsamir að komast í flóttamannabúðir eins og Jolie vakti athygli á.

„Miðað við hversu ástandið er alvarlegt telja flóttamennirnir hér sig vera heppna. Fyrir utan þær milljónir sem eru innilokaðar í Sýrlandi og eru í lífshættu á degi hverjum eru 75 þúsund Sýrlendingar innikróaðir á jaðarsvæðinu, einskismannslandi á landamærunum Jórdaníu, þ.m.t. börn, barnshafandi konur og alvarlega veikir sjúklingar. Þetta fólk hefur ekki fengið mat síðan snemma í ágúst og neyðaraðstoð er af skornum skammti,“ sagði Jolie á blaðamannafundi í flóttamannabúðunum í dag.

En þrátt fyrir að Sameinuðu þjóðirnar hafi vakið athygli á vanda þessa fólks og fleiri í sömu stöðu mánuðum saman virðist ekkert vera gert til að koma þessu fólki til hjálpar. Þá vakti Jolie athygli á að Jórdanir hefðu tekið á móti 1,4 milljónum flóttamanna frá Sýrlandi og réðu varla við að taka við fleirum og gætu ekki staðið einir undir aðstoðinni.

„Skilaboð mín til leiðtoga heimsins eru þau að þeir undirbúi sig fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna eftir 10 daga og varpi fram þeirri spurningu hver sé grunnástæða átakanna í Sýrlandi og hvað þurfi að gera til að binda enda á þau. Ég bið ykkur um að gera það að meginefni umfjöllunar ykkar þar,“ sagði Angelina Jolie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×