Arna Stefanía Guðmundsson, hlaupari úr FH, var glöð í bragði þegar Vísir heyrði í henni hljóðið eftir að hún varð Norðurlandameistari í 400 metra grindahlaupi í aldursflokki 20-22 ára stúlkna.
Tíminn er sá næstbesti í sögunni í 400 metra grindahlaupi, en tíminn dugar til þess að komast inn á heimsmeistaramót og Ólympíumót eins og staðan er í dag.
„Ég var í sjokki. Ég var alltaf að bíða eftir að það kæmi annar tími," sagði Arna Stefanía í samtali við Vísi stuttu eftir hlaup.
„Þó svo að fílingurinn hafi verið góður kom mér á óvart hvað þetta var hratt, en svo áttaði ég mig á að þetta var alveg rétt. Ég gat ekki leynt gleðinni og fagnaði með Íslendingunum."
Sjá einnig:Arna Stefanía Norðurlandameistari
FH-ingurinn hefur verið í fantaformi að undanförnu og unnið hver gullverðlaunin á fætur öðrum. Hún segir að þetta hafi komið sér smá á óvart.
„Að vissu leyti kom mér þetta á óvart. Ég vissi samt að ég væri í hörkuformi, en meira en einnar sekúndu bæting kom mér skemmtilega á óvart."
Tíminn var HM lágmark fyrir næsta sumar í fullorðnisflokki, en einnig Ólympíulágmark og gat Arna ekki leynt gleði sinni.
„Þetta er algjörlega geggjað! Að sjá það bara svart á hvítu að ég er komin í þann klassa var frábært, en við Heiða (þjálfari Örnu) vissum alltaf að ég gæti þetta og nú er komin staðfesting á því."
„Ég er líka að keppa á morgun í 100 metra grindahlaupi og 200 metra hlaupi, en svo er aldursflokka meistaramótið á Íslandi næstu helgi."
„Það er aldrei að vita að það komi svo eitthvað boð á sterkt hlaup áður en ég fer í árlegu hvíldina mína, en annars er bara komið að smá hvíld fyrir undirbúningstímabilið," sagði Arna að lokum.
