Lögreglan í Taívan er orðin langþreytt á Pokémon Go spilurum sem spila leikinn vinsæla á meðan þeir eru í umferðinni. Umferðarlagabrot sem rekja má til spilunar leiksins hefur fjölgað gríðarlega og eru sektirnar vegna brotanna háar.
Leikurinn kom út í Taívan á laugardaginn og varð strax gríðarlega vinsæll eins og við mátti búast og svo virðist sem að íbúar Taívan spili leikinn hvar sem er. Alls gaf lögreglan út 1.210 sektir á þremur dögum frá útgáfu leiksins en flestir þeirra sem fengu sektina voru á skellinöðrum eða vespum.
„Allt Taívan hefur gengið af göflunum undanfarna daga spilandi þennan leik,“ sagði yfirmaður umferðardeildar lögreglunnar í Taipei, höfuðborg Taívan.
Þá hefur lögregla kvartað undan því að leikurinn sé spilaður á stöðum þar sem það sé ekki viðeigandi, þar með talið forsetahöllinni. Í frétt Reuters er einnig tekið fram að undanfarna daga hafi gestir dýragarðsins þar í Taipei verið niðursokknir í Pokemon Go spilun frekar en að skoða dýrin í garðinum.
Leikurinn gengur í stuttu máli út á að safna Pokémon-fígúrunum sem flestir ættu að kannast við og keppa um þær á sérstökum stöðvum. Í upphafi velur leikmaðurinn sér „avatar“ sem hann getur svo stíliserað að vild. Til þess að geta hreyft sig um heim Pokémonanna þarf leikmaðurinn sjálfur að færast um raunheiminn og ferðast á milli staða.

