„Við náðum mikilsverðum árangri í kvöld á vegferð okkar að sterkari sameiningu þjóðarinnar: þetta er í fyrsta skipti sem stór flokkur útnefnir konu forsetaefni sitt. Þar sem ég stend hér, dóttir móður minnar og móðir dóttur minnar, þá er ég svo hamingjusöm yfir því að þessi dagur hafi runnið upp.
Ég er hamingjusöm fyrir ömmur og ungar stúlkur og allar konur þar á milli. Ég er líka glöð fyrir hönd karla og drengja, því að þegar einhvers konar hindrun er ekki lengur til staðar í Bandaríkjunum, fyrir einhvern, þá ryður það brautina fyrir alla. Þegar það eru engin þök þá eru engin takmörk,“ sagði Clinton um þessa markverðu staðreynd. Clinton gerði að umtalsefni sínu hið fræga glerþak en líkingin sló í gegn á flokksþingi demókrata árið 2008 þegar Barack Obama, núverandi forseti Bandaríkjanna, fékk útnefningu Demókrataflokksins í stað hennar.

Með ræðunni þurfti Clinton að sýna demókrötum, og bandarísku þjóðinni, að hún sé verðugt forsetaefni, hún geti barist við hinn ótrúlega Donald Trump og sameinað þjóðina þrátt fyrir að hafa verið afar umdeild.
Clinton var beittust í ræðu sinni þegar hún dró skörp skil á milli sín og Trump. Hún sagði Trump beinlínis hættulegan, hún sagði að manni sem væri auðvelt að leiða í snöru á Twitter væri ekki treystandi fyrir kjarnorkuvopnum.
Þá birtist Clinton kjósendum sínum sem hinn bjartsýni frambjóðandi en Trump hefur dregið upp fremur dökka mynd af ástandinu í Bandaríkjunum. Clinton lagði mikið upp úr samheldni og sameiningu, talaði um að hún ætlaði ekki að vinna vinnuna ein, enda væri það ekki hægt.
Ræðu Clinton má sjá í heild sinni hér að neðan.