Erlent

Formannsframbjóðandi um Pútín: Hann yrði að fylgja alþjóðalögum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Óvíst er hvort Pútín mun hlýða tilmælum Leadsom.
Óvíst er hvort Pútín mun hlýða tilmælum Leadsom. vísir/epa/epa
„Ég myndi nálgast Pútín með þeim hætti að segja honum að hann verði undantekningalaust að virða alþjóðleg lög,“ sagði Andrea Leadsom í samtali við Sky News. Leadsom er önnur tveggja kvenna sem kemur til greina sem næsti formaður breska Íhaldsflokksins.

Leadsom, sem er orkumálaráðherra landsins, lenti í öðru sæti í forvali þingmanna á því hverjir koma til greina sem formaður. Theresa May, innanríkisráðherra, hlaut rúmlega tvöfalt fleiri atkvæði.

Í viðtalinu við Sky bætti Leadsom því við að það væri ekki aðeins Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, sem þyrfti að halda sig innan ramma laganna. Það ætti við um alla þjóðarleiðtoga.

„Við verðum að tryggja það að við höfum þær diplómatísku tengingar sem nauðsynlegar eru til að halda þeim, sem gera bara það sem þeir vilja, innan ramma alþjóðalaga,“ sagði Leadsom en hún nýtur meðal annars stuðnings Boris Johnson í embættið.

Næstavíst þykir að nýr formaður verði næsti forsætisráðherra landsins. Það yrði í annað sinn í sögu Bretlands sem kvenmaður tekst á við forsætisráðherraembættið.

Fyrri umferð formannskosningarinnar fór fram meðal þingmanna flokksins. Í þeirri síðari fá skráðir flokksmenn að kjósa hver mun leiða flokkinn.


Tengdar fréttir

Hörð barátta framundan um formennsku í breska Íhaldsflokknum

Veðbankar töldu þingmanninn og Brexit-sinnann Boris Johnson líklegastan en er Johnson tilkynnti um ákvörðun sína í gær sagði hann að næsti leiðtogi íhaldsmanna myndi þurfa að sameina flokksmenn og tryggja stöðu Bretlands í heiminum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×