Innlent

Enn bilar sama vél Icelandair: Flugi frá Amsterdam frestað til morguns eftir sjö klukkustunda bið

Birgir Olgeirsson skrifar
Farþegar Icelandair á Schiphol-flugvelli í Amsterdam.
Farþegar Icelandair á Schiphol-flugvelli í Amsterdam. Vísir/Aðsend
„Fluginu hefur verið frestað til morguns,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, um Boeing 767 farþegaþotu flugfélagsins sem átti að leggja af stað frá Schipol-flugvelli í Amsterdam klukkan tvö í dag að staðartíma í Hollandi.

Bilun varð hins vegar í rafkerfi vélarinnar sem olli því að ekkert varð úr brottför vélarinnar. Eru farþegar komnir á hótel og áhöfnin í hvíld. Ekki er búið að áætla brottför á morgun og hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort önnur vél verði notuð til að flytja farþegana til Íslands.

Sama vél og snúið var tvisvar við í síðustu viku

Um er að ræða sömu vél og var snúið við skömmu eftir flugtak á leið frá Boston til Íslands á mánudag í síðustu viku og aftur skömmu eftir flugtak frá Keflavíkurflugvelli á laugardag. Vélin bættist við flugflota Icelandair í maí.

Bilunin sem átti sér stað í síðustu viku var vegna mælitækis í stjórnklefanum sem sýndi að hjólabúnaður vinstra megin hefði ekki fest sem skyldi. Guðjón segir bilunina í dag annars eðlis. Ekki hafi komið til umræðu innan flugfélagsins að leggja vélinni. 

Farþegaþota frá Icelandair. Vísir/Vilhelm.
Farþegar Icelandair þurftu að bíða í töluverðan tíma í farþegaþotunni á Schiphol-flugvelli áður en fluginu var aflýst. Áætluð brottför var klukkan 14 að staðartíma en þeir fóru ekki í vélina fyrr en klukkan 15. Þar sátu þeir í þrjá tíma áður en þeir fóru aftur inn í flugstöð. Þar biðu þeir í um klukkutíma áður en þeir fóru aftur út í vél. Á tíunda tímanum að staðartíma í Hollandi í kvöld fengu farþegarnir tilkynningu um að þeir ættu að fara aftur inn í flugstöð því flugi þeirra hefði verið frestað til morguns og fá þeir gistingu á hóteli á kostnað Icelandair.

Farþegar geta sótt um bætur

Í Evrópureglugerð númer 261
, sem tekur til farþega í áætlunarflugi og leiguflugi, eru fastsett lágmarksréttindi farþega ef þeim er neitað um far, flugi aflýst eða seinkun verður á flugi. Reglugerðin tekur til farþega á ferðalagi innan EES-svæðisins, svo og farþega sem leggja upp frá þriðja landi inn á EES-svæðið. Farþegi sem ferðast utan EES á réttindi skv. alþjóðasamningum sem flestar þjóðir eru aðilar að. Framkvæmd þeirra byggir í grunninn á því að farþegi þarf að sýna fram á tjón til að fá það bætt.

Samkvæmt henni eiga farþegar rétt á bótum ef:

A) Flugi seinkar um tvær klukkustundir eða meira í 1.500 kílómetra flugi eða styttra.

B) Flugi seinkar um þrjár klukkustundir eða meira í flugi innan Evrópubandalagsins sem er lengra en 1.500 kílómetrar og í öllu öðru flugi á bilinu 1.500 til 3.500 kílómetrar.

C) Ef flugi seinkar um fjórar klukkustundir eða meira í flugi sem fellur ekki undir A- eða B-lið.

Bæturnar miðast við eftirfarandi:

A) 250 evrur, um 34 þúsund krónur miðað við gengi dagsins, fyrir öll flug sem eru 1.500 kílómetrar eða styttri.

B) 400 evrur, um 55 þúsund krónur miðað við gengi dagsins, fyrir öll flug innan Evrópubandalagsins sem eru lengri en 1.500 kílómetrar og fyrir öll önnur flug á bilinu 1.500 og 3.500 kílómetrar.

C) 600 evrur, tæpar 83 þúsund krónur miðað við gengi dagsins,  fyrir öll flug sem falla ekki undir A- eða B-lið.

Nánar um réttindi flugfarþega á vef Samgöngustofu hér. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×