Grínistinn góðkunni John Oliver gerði í síðasta þætti sínum stólpagrín að forseta Téténíu, stríðsherranum skrautlega Ramzan Kadyrov, eftir að sá síðarnefndi birti mynd á Instagram-síðu sinni og bað 1,8 milljón fylgjendur sínar að hjálpa sér að leita að tígrisketti sínum sem lét sig hverfa nýverið.
Oliver tók eftir þessu og gerði miskunarlaust grín að Kadyrov sem er afar virkur á samfélagsmiðlum þar sem hann birtir reglulega myndir af sér í ræktinni eða lýsir yfir ást sinni á Vladimir Pútín. Rússlandsforseti skipaði Kadyrov sem forseta Téténíu, sjálfstjórnarhéraði í Rússlandi, árið 2007.
Kadyrov er umdeildur en menn tengdir honum eru sterklega grunaðir um morðið á pólítískum andstæðingi Pútín, Boris Nemtsov, í Moskvu á síðasta ári. Oliver gerði sérstaklega grín að ást Kadyrov á Pútín og tók einnig fyrir frásagnir frá Téténíu þar sem greint var frá því að Kadyrov hafi látið yfirheyra þúsund gesti brúðkaups sem hann var viðstaddur eftir að hann týndi símanum sínum.
Oliver lét þó ekki duga að gera grín að Kadyrov í sjónvarpsþættinum sínum en hann bað áhorfendur sína um að nota umræðumerkið #FindKadyrovsCat til þess að hjálpa til við leitina á tígriskettinum ástkæra.
.@RKadyrov Is this your cat? pic.twitter.com/2UacV3km7J
— John Oliver (@iamjohnoliver) May 23, 2016
Kadyrov sjálfur fór þó ekki varhluta af gríninu og birti sjálfur mynd af John Oliver þar sem hann hjólaði í grínistann fræga á frekar óskiljanlegri ensku sem snerist að mestu leyti um mannkosti Vladimir Putin.
Líkt og vera ber tóku notendur vel í ósk Oliver og gáfu Kadyrov fjölmargar vísbendingar um staðsetningu kattarins. Hvort þær hafi reynst gagnlegar skal ósagt látið.