Erlent

Telja sig hafa fellt leiðtoga ISIS í Falluja

Birgir Olgeirsson skrifar
Íraskur hermaður í baráttu við ISIS í Falluja.
Íraskur hermaður í baráttu við ISIS í Falluja. Vísir/Getty
Leiðtogi hryðjuverkasamtakanna ISIS í írösku borginni Falluja er sagður hafa verið á meðal þeirra 70 sem féllu í loftárás á borgina. Fréttastofa breska ríkisútvarpsins BBC hefur þetta eftir Steven Warren, ofursta í bandaríska hernum, sem sagði 20 loftárásir hafa verið gerðar síðastliðna fjóra daga. Var þeim beint að þeim svæðum sem ISIS-liðar voru hvað sterkastir á.

Voru loftárásirnar gerðar til að styðja við herlið Íraka sem eru að reyna að endurheimta Falluja úr greipum ISIS.

Warren sagði að þó að einhver árangur hefði náðst í þessum loftárásum í baráttunni við ISIS þá væri óljóst hversu langan tíma það mun taka að endurheimta borgina.

Um 50 þúsund óbreyttir borgarar eru fastir í Falluja og hefur skilaboðum verið komið til þeirra um að halda sig frá ISIS-svæðum og setja hvít lök á þökin sín til að forðast að verða fyrir sprengjuregni.

BBC segir Sameinuðu þjóðirnar búa yfir skýrslum sem sýna fram á að óbreyttir borgarar séu að deyja úr hungri í borginni og þeir séu myrtir neiti þeir að berjast fyrir ISIS. Þá hafa margir sem hafa verið gripnir við að flýja borgina verið teknir af lífi eða hýddir af ISIS-liðum.

Sameinuðu þjóðirnar sögðu hundruð fjölskylda hafa náð að flýja borgina í dag með aðstoð íraskra yfirvalda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×