Lífið

Felix Bergsson: „Rússar vinna Eurovision"

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Felix Bergsson er úti í Stokkhólmi á vegum RÚV.
Felix Bergsson er úti í Stokkhólmi á vegum RÚV. Vísir/Getty
„Mér leist bara vel á þetta. Ég var með 9 rétta af 10,“ segir Felix Bergsson aðspurður um hvernig honum hafi litist á úrslit seinni undankeppni Eurovision sem fór fram í Stokkhólmi í kvöld.

Það kom stjórnanda Alla leið á RÚV því ekki á óvart að hvorki Danmörk né Noregur hafi verið á meðal þeirra tíu þjóða sem komust áfram í kvöld.

„Það er vissulega austurlandasveifla yfir keppninni í ár. En þegar allt kemur til alls eru það bara gæði laganna og hvernig keppendur standa sig á sviðinu sem ræður úrslitum.“

Sergey Lazarev flytur lagið You are the Only One í keppninni í ár og styðst við töluverðar myndbrellur.Vísir/Getty
Gæti hjálpað Svíum að sitja einir í úrslitum

Felix segist ekki muna eftir því að sú staða hafi komið upp áður að engin Norðurlandaþjóð hafi verið kosin inn í úrslitin.

„Svíarnir eru þarna náttúrulega af því að þeir unnu í fyrra og sitja því einir eftir. Það gæti vel gerst að það hjálpi þeim við að fá fleiri 12 stig frá nágrannaþjóðum sínum en það má ekki gleyma því að lagið þeirra hefur verið mjög vinsælt á útvarpsstöðvum í Skandinavíu. Það telur auðvitað líka.“

Hann bendir þó á að sænskir lagahöfundar og upptökustjórar komi mikið við sögu í keppninni í ár. Til dæmis séu rokklögin tvö, sem koma frá Georgíu og Kýpur, bæði unnin af sænska upptökustjóranum Thomas G:son.

Spáir rússum sigri

Felix hefur fylgst vel með æfingum síðustu daga og hefur mótað upplýsta skoðun á því hver muni fara með sigur á hólmi í ár.

„Ég segi þetta án allrar ábyrgðar en ég held að Rússarnir séu að fara vinna þetta í ár.“

Hluti íslenska hópsins fer frá Stokkhólmi í fyrramálið. Felix verður þá á úrslitakeppninni á laugardag sem og Gréta Salóme sem flýgur svo beint í frí til Ítalíu á sunnudag.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×