Hilmar Örn Jónsson sleggjukastari úr FH, sem nú stundar nám og keppni með University of Virginía, stórbætti í dag sinn besta árangur í sleggjukasti á háskólamóti sem fram fór í Tallahassee í Flórída í Bandaríkjunum þegar hann kastaði 71,52 metra með karlasleggju.
Með árangrinum bætti Hilmar Örn Íslandsmetið í flokki 20-22 ára, en fyrra met átti Bergur Ingi Pétursson sem einnig keppti fyrir FH og var það met 70,30 metrar sett árið 2007. Hilmar Örn er nú kominn í annað sætið á afrekaskrá FRI frá upphafi.
Árangur Hilmars Arnar er einnig skólamet hjá University of Virginia og vallarmet í Tallahassee í Flórida þar sem mótið fer fram, en Hilmar Örn er á sínu fyrsta keppnisári með háskólanum.
Árangurinn lofar góðu fyrir framhaldið en Íslandsmetið í karlaflokki, sem einnig er í eigu Bergs Inga frá 2008, er 74,48m.
Lágmarkið á EM sem fram fer í Amsterdam í sumar er 73,50 metrar.

