Körfubolti

San Antonio og Oklahoma mætast í beinni á Stöð 2 Sport í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook og Kawhi Leonard eigast við.
Russell Westbrook og Kawhi Leonard eigast við. vísir/getty
San Antonio Spurs og Oklahoma City Thunder mætast í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar í NBA í nótt.

San Antonio sópaði vængbrotnu liði Memphis Grizzlies í fyrstu umferð úrslitakeppninnar á meðan Oklahoma vann Dallas Mavericks í fimm leikjum.

Hjá Oklahoma mæðir mest á tveimur mönnum; Russell Westbrook og Kevin Durant, en þeir félagar skoruðu báðir 26,0 stig að meðaltali í leik í Dallas-seríunni. Westbrook var auk þess með 7,2 fráköst og 11,2 stoðsendingar að meðaltali í leikjunum fimm.

Westbrook og Durant hafa borið Oklahoma-liðið uppi undanfarin ár en ekki komist í lokaúrslitin frá 2012. Oklahoma missti af sæti í úrslitakeppninni í fyrra en árið þar á undan tapaði liðið 4-2 fyrir San Antonio í úrslitum Vesturdeildarinnar.

San Antonio hefur verið áskrifandi að sæti í úrslitakeppninni allt frá því liðið valdi Tim Duncan númer eitt í nýliðavalinu 1997. Á þessum tíma hefur San Antonio fimm sinnum orðið NBA-meistari, síðast fyrir tveimur árum.

San Antonio er með heimavallaréttinn í einvíginu gegn Oklahoma sem gæti skipt sköpum enda vann liðið 40 af 41 leik sínum á heimavelli í deildakeppninni.

Fyrstu tveir leikirnir fara fram í San Antonio en eftir það færist einvígið yfir til Oklahoma.

Fyrsti leikur San Antonio og Oklahoma, sem fer fram í AT&T Center í San Antonio, hefst klukkan 00:30 í nótt og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×