Fótbolti

Barcelona aftur á toppinn | Sama atburðarrás og síðasta laugardag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Suárez hefur skorað níu mörk í síðustu þremur leikjum Barcelona.
Suárez hefur skorað níu mörk í síðustu þremur leikjum Barcelona. Vísir/Getty
Barcelona endurheimti toppsætið í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta með 0-2 útisigri á Real Betis í kvöld.

Líkt og síðasta laugardag voru Real Madrid, Atlético Madrid og Barcelona á einhverjum tímapunkti á toppi deildarinnar í dag.

Real Madrid fór á toppinn í tvo klukkutíma eftir 0-1 sigur á Real Sociedad á útivelli áður en nágrannarnir í Atlético Madrid tóku það af þeim með 1-0 sigri á Rayo Vallecano. En líkt og síðasta laugardag endar Barcelona daginn í toppsætinu.

Eftir þrjá tapleiki í röð hafa Börsunga unnið síðustu þrjá leiki sína með markatölunni 16-0.

Það tók spænsku meistarana 50 mínútur að brjóta ísinn gegn Betis sem missti Heiko Westermann af velli með rautt spjald á 35. mínútu.

Ivan Rakitic skoraði fyrra mark Barcelona og níu mínútum fyrir leikslok bætti Luís Suárez öðru marki við. Lionel Messi lagði upp bæði mörk Börsunga í kvöld.

Barcelona er með 85 stig á toppi deildarinnar þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Atlético Madrid er með jafn mörg stig en Börsungar eru ofar í töflunni sökum betri árangurs í innbyrðis viðureignum liðanna. Real Madrid er svo í 3. sætinu með 84 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×