Erlent

Íslenskur blær yfir mótmælum á Möltu

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mótmæli á Möltu
Mótmæli á Möltu Vísir/AFP
Nokkur þúsund mótmælendur komu saman fyrir framan skrifstofu Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu, á laugardag til að krefjast afsagnar hans eftir að nöfn tveggja samherja forsætisráðherrans birtust í Panama-skjölunum.

Auk þess kröfðust mótmælendur þess að Konrad Mizzi, heilbrigðis- og orkumálaráðherra, og Keith Schembri, aðstoðarmaður forsætisráðherrans, segðu einnig af sér, en nöfn þeirra birtust í Panama-skjölunum. Simon Busuttill, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segir Muscat hafa valdið Möltu skömm og að hann hafi misst siðferðislegt vald til að leiða landið.

Forsætisráðherrann hefur sagt að hann muni taka ákvörðun varðandi framtíð Mizzi og Schembri þegar hann hefur kynnt sér málið frekar, en bæði Mizzi og Schembri neita að hafa gert neitt rangt. Stjórnarandstaðan hyggst leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórn landsins sem hefur verið við völd frá árinu 2013.

Malta er lítið eyríki í Evrópu en þar búa um 445.000 manns. Joseph Muscat hefur verið forsætisráðherra landsins síðan 2013 þegar flokkur hans, Verkamannaflokkurinn, steypti Þjóðernisflokknum af stóli eftir 15 ára setu í ríkisstjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×