José Manuel Soria, iðnaðar-, orku- og ferðamálaráðherra Spánar, sagði af sér embætti í morgun. Ástæðan eru gögn úr Panamaskjölunum sem tengja hann við félög á Bahamaseyjum og Jersey. Um málið er fjallað á vef New York Times.
Afsögn Soria ýtir undir það að kosningum í landinu verði flýtt. Kosningar fóru fram á Spáni í desember en þar fékk flokkur Mariano Rajoy, forsætisráðherra, flest atkvæði en tapaði meirihluta sínum. Ríkisstjórnin stendur höllum fæti og er talið líklegt að kosið verði á ný í júní.
„Það er algerlega ósatt að ég tengist fyrirtækjum, félögum eða nokkurs konar starfsemi í Panama, á Bahamaseyjum eða nokkru öðru skattaskjóli,“ sagði í yfirlýsingu frá Soria áður en málið komst í hámæli.
Tengingar ráðherrans fyrrverandi við félögin ná áratugi aftur í tímann en útlit er fyrir að hann hafi látið af viðskiptum tengdum þeim áður en hann hóf afskipti af pólitík.
Iðnaðarráðherra Spánar segir af sér vegna félaga í skattaskjólum

Tengdar fréttir

Sigmundur Davíð farinn í frí
Fyrsti varaþingmaður Framsóknarflokksins í norðausturkjördæmi hefur tekið sæti formannsins á þingi.

Húsleit hjá Mossack Fonseca í Panama
Lögreglan í Panama gerði í gær húsleit á skrifstofum lögfræðistofunnar Mossack Fonseca, sem er stofan sem Panamaskjölin svokölluðu láku frá.

Fjármálaráðherrar fimm stærstu hagkerfa Evrópu samþykkja aðgerðir gegn skattaskjólum
Samþykkja að deila sín á milli upplýsingum eigendur aflandsfélaga í skattaskjólum.