Körfubolti

LeBron varð tólfti stigahæsti leikmaður sögunnar í sigri Cleveland | Myndbönd

Tómas þór Þórðarson skrifar
LeBron James fór fyrir sínum mönnum í Cleveland Cavaliers þegar liðið lagði Brooklyn Nets, 107-87, á heimavelli í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. LeBron skoraði 24 stig, tók fjögur fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.

LeBron komst, með þriggja stiga körfu í fyrsta leikhluta, upp fyrir Dominique Wilkins á stigalista NBA-deildarinnar frá upphafi og er nú í tólfa sæti með 26.689 stig.

„Það er mikill heiður að vera í þessari stöðu,“ sagði LeBron við blaðamenn eftir leikinn en það mikilvæga er að með sigrinum fór Cleveland langt með að tryggja sér efsta sætið í vestrinu. Myndband af körfunni sögulegu hjá LeBron má sjá hér að ofan.

Cleveland er með 53 sigurleiki og 22 tapleiki, tveimur og hálfum leik á undan Toronto sem er með 50 sigra og 24 töp í öðru sæti austurdeildarinnar.

Oklahoma City Thunder geirnegldi þriðja sætið í vestrinu með sigri á LA Clippers, 119-117, sem er nú fimm og hálfum leik á eftir OKC í baráttunni um þriðja sæti vesturdeildarinnar.

Leikurinn var virkilega jafn og spennandi en á endanum var það harka Oklahoma City í fráköstunum sem hafði betur gegn sjóðheitum skyttum Clippers. Austin Rivers hitti úr sjö af níu þriggja stiga skotum sínum fyrir Clippers og Jamal Crawford úr fimm af átta. Báðir skoruðu 32 stig.

Kevin Durant skoraði 31 stig, tók átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar fyrir Oklahoma City en Russell Westbrook skoraði 21 stig, tók átta fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.

Úrslit næturinnar:

Cleveland Cavaliers - Brooklyn Nets 107-87

Indiana Pacers - Orlando Magic 94-114

Houston Rockets - Chicago Bulls 100-103

New Orleans Pelicans - Denver Nuggets 101-95

OKC Thunder - LA Clippers 119-117

Portland Trail Blazers - Boston Celtics 116-109

Kevin Durant og Jamal Crawford skora og skora:
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×