Enski boltinn

Íslenska fótboltalandsliðið aftur það besta á Norðurlöndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna hér sæti á EM.
Íslensku strákarnir fagna hér sæti á EM. Vísir/Vilhelm
Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu verður besta knattspyrnulandslið Norðurlandanna á ný þegar næsti FIFA-listinn verður gefinn út í næstu viku.

Spænski tölfræðingurinn Alexis Martín-Tamayo hefur nú reiknað út efstu 60 sætin á listanum sem Alþjóðaknattspyrnusambandið mun gera opinberann 7. apríl næstkomandi.

Íslenska karlalandsliðið var í 38. sæti á síðasta lista FIFA sem kom út 3. mars síðastliðinn en mun hækka um þrjú sæti á nýjum lista og verður í 35.sæti.

Íslenska liðið tapaði 2-1 fyrir Dönum en vann 3-2 sigur á Grikklandi frá því að listinn var síðast tekinn saman.

Landar Lars Lagerbäck í Svíþjóð voru fjórum sætum ofar en Ísland á marslistanum en þeir detta niður um tvö sæti og eru núna í 36.sæti eða einu sæti neðar en Ísland.

Danir voru í 40. sætinu á listanum í mars en lækka um sæti þrátt fyrir sigurinn á Íslendingum. Danir töpuðu á móti Skotlandi í hinum leik sínum í þessu landsleikjahléi.

Ísland var síðast best á Norðurlöndum á listanum sem var gefinn út nóvember 2015 en þá var Ísland í 31.sæti , fjórum sætum á undan Dönum sem voru næstir.

Svíar voru þá komnir niður í 45. Sæti en þeir hækkuðu sig um tíu sæti á næsta lista á eftir og hafa verið efstir á Norðurlöndum undanfarna fjóra mánuði.

Ísland var einnig með besta landslið Norðurlanda í júlí, ágúst og október í fyrra sem og í október árið 2014.  

Argentína tekur fyrsta sætið af Belgíu á FIFA-listanum sem verður gefinn út á fimmtudaginn og bæði Síle og Kólumbía komast fyrir Spán og Þýskaland. Brasilíumenn lækka um eitt sæti og er núna í sjöunda sæti listans.

Byrjunarliðið í Danaleiknum.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×