Erlent

Mossack Fonseca segjast hafa verið hakkaðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Forsvarsmenn lögmannsstofunnar Mossack Fonseca segja að Panamaskjölin svokölluðu hafi verið tekin úr gagnagrunnum fyrirtækisins í tölvuárás. Árásin hafi verið gerð utan frá. Þá segir einn af stofnendum fyrirtækisins að Mossack Fonseca hafi ekki brotið lög í starfsemi sinni. Fyrirtækið hafi ekki eytt gögnum né hjálpað viðskiptavinum að komast undan sköttum eða þvo fjármuni.

Ramon Fonseca sagði að þau gögn sem hefðu verið notuð til að fjalla um fyrirtækið hafi verið tekin úr samhengi og túlkuð á rangan hátt.

„Eini glæpurinn sem hefur verið framinn, er tölvuárásin,“ sagði Fonseca við Reuters. „Enginn er að tala um það. Það er fréttin.“

Yfirvöld í Frakklandi tilkynntu í gær að Panama yrði sett á svartan lista yfirvalda yfir „ósamvinnuþýð skattaskjól“. Starfsmannastjóri forseta Panama segir að stjórnvöld þar í landi gætu brugðist við með sambærilegum aðgerðum gegn Frakklandi og öllum öðrum ríkjum sem fylgi þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×