Körfubolti

Þúsund sigurleikir hjá Duncan í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan og Tony Parker hafa unnið marga leiki saman.
Tim Duncan og Tony Parker hafa unnið marga leiki saman. Vísir/Getty
Tim Duncan, leikmaður San Antontio Spurs, var enn á ný í sigurliði í nótt þegar Spurs-liðið vann 88-86 sigur á Utah Jazz í NBA-deildinni í körfubolta.

Þetta var þúsundasti sigurleikur Tim Duncan á ferli sínum í NBA-deildinni og er hann aðeins þriðji leikmaðurinn sem nær því sögu deildarinnar.

Hinir tveir eru Kareem Abdul-Jabbar (1074 sigurleikir) og Robert Parish (1014 sigurleikir) en Tim Duncan er á eini sem hefur unnið þúsund leiki með einu og sama liðinu.

Duncan hafði bætti met John Stockton (953) í nóvember yfir flesta sigurleiki með einu félagi.

Tim Duncan hefur spilað í NBA síðan 1997 en með hann innanborðs hefur San Antonio Spurs unnið 50 leiki eða fleiri á öllum árum nema því sem var stytt vegna verkfalls leikmanna.

Tim Duncan var rólegur í þessum þúsundasta sigurleik sínu, skoraði 3 stig, tók 2 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og varði 2 skot.

Tim Duncan hefur verið að bæta við afrekskrána í vetur en í mars varð hann aðeins sjötti leikmaðurinn sem nær að taka 15 þúsund fráköst.

Duncan og Abdul-Jabbar eru nú þeir einu í sögunni með að minnsta kosti tuttugu og fimm þúsund stig, fimmtán þúsund fráköst og þrjú þúsund varin skot.

Það setur þessa þúsund sigurleiki kannski í smá samhengi að Tim Duncan hefur unnið fleiri sigra í NBA en eftirtalin félög: Charlotte (912), Minnesota (843), Toronto (730), Memphis (694) og New Orleans (527).

Annað gott dæmi til samanburðar er að Michael Jordan spilaði samtals 930 leiki með Chicago Bulls.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×