Viðskipti erlent

Styttist í sölu grunnreksturs Yahoo og asískra eigna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Marissa Mayer, forstjóri Yahoo, gæti misst vinnuna ef af sölu grunnreksturs fyrirtækisins verður.
Marissa Mayer, forstjóri Yahoo, gæti misst vinnuna ef af sölu grunnreksturs fyrirtækisins verður. Vísir/Getty
Forsvarsmenn netfyrirtækisins Yahoo hafa veitt fjárfestum tvær vikur til þess að skila tilboðum í grunnrekstur þess. Þeir hafa þangað til 11. apríl til þess að skila inn tilboði í grunnrekstur fyrirtækisins og eignir þess í Asíu, Alibaba Group Holding og Yahoo Japan.

Samkvæmt heimildum Wall Street Journal hafa fjörutíu fyrirtæki sýnt áhuga á hlutanum í fyrirtækinu en forsvarsmenn þess vilja fækka þeim sem sækjast eftir eignarhaldinu. Meðal áhugasamra eru fjarskiptafyrirtækið Verizon, IAC/InterActiveCorp. og Time Inc. Microsoft bauð Yahoo tilboð um yfirtöku árið 2008 en hefur ekki lengur áhuga á beinni yfirtöku.

Stjórnendur Yahoo eru undir mikilli pressu um að koma söluferlinu af stað fyrir sumarið en þá munu hluthafar koma saman og ákveða hvort þeir ætli að skipta út stjórnarmönnum fyrirtækisins. Með því að koma söluferlinu af stað í byrjun apríl er talið að samningar geti náðst í júní eða júlí.

Mikil óvissa ríkir um framtíð Marissu Mayer, forstjóra Yahoo, en hún hefur sætt gagnrýni á síðustu mánuðum fyrir hægagang í endurskipulagningu fyrirtækisins. Markaðurinn greindi frá því í lok síðasta árs að ef henni hefði verið sagt upp þá vegna sölu fyrirtækisins fengi hún allt að 110 milljónir dollara, jafnvirði 14,2 milljarða íslenskra króna, í starfslokasamning. Hlutabréfaverð Yahoo hefur hins vegar lækkað töluvert síðan þá og fengi hún nú mun minna, eða 37 milljónir dollara, jafnvirði 4,7 milljarða íslenskra króna. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×