Viðskipti erlent

Björgólfur Thor hækkar um nærri 300 sæti á Forbes-listanum

Bjarki Ármannsson skrifar
Bill og Björgólfur eru áfram á lista Forbes yfir milljarðamæringa heimsins.
Bill og Björgólfur eru áfram á lista Forbes yfir milljarðamæringa heimsins. Vísir/AFP/Vilhelm
Bandaríkjamaðurinn Bill Gates, stofnandi Microsoft, trónir á toppi lista tímaritsins Forbes yfir ríkustu menn heimsins, sem birtur var í dag. Björgólfur Thor Björgólfsson er sem fyrr eini Íslendingurinn á listanum, en hann er í 1121. sæti.

Gates hefur nú verið metinn ríkasti maður heims af Forbes sautján af síðustu 22 árum. Hann er sem stendur metinn á 75 milljarða Bandaríkjadala, sem gerir næstum því tíu þúsund milljarða íslenskra króna. Gates var framkvæmdastjóri Microsoft um árabil en starfar nú helst við góðgerðarmál ásamt konu sinni, Melinda Gates.

Sjá einnig: Bill Gates skrapp í þyrlu á Hornstrandir og flutti inn allan mat



Í næstu sætunum á eftir Gates koma þeir Amancio Ortega, stofnandi Zara, og fjárfestarnir Warren Buffett og Carlos Slim Helu. Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, er í sjötta sæti og þeir Larry Page og Sergey Brin, feður Google-leitarvélarinnar, í 12. og 13. Hin franska Liliane Bettencourt, í ellefta sæti, er hæst kvenna á listanum en faðir hennar stofnaði snyrtivörufyrirtækið L‘Oréal.

Björgólfur Thor hækkar á listanum milli ára en hann sneri aftur á listann í fyrra eftir fimm ára fjarveru. Þá vermdi hann 1415. sæti listans og hefur hann því hækkað um 294 sæti. Forbes metur auðæfi hans á 1,59 milljarða dala, um 206 milljarða íslenskra króna. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×