FH rauf í dag þriggja ára einokun ÍR á bikarmeistaratitlinum í frjálsum íþróttum innanhúss.
Bikarkeppnin var haldin í Kaplakrika og FH-ingar gerðu sér lítið fyrir og tóku titilinn á heimavelli.
FH náði í 98 stig, tveimur meira en ÍR. Norðurland og Fjölnir/Afturelding komu næst með 58 stig hvor. Breiðablik endaði í 5. sæti og Ármann rak lestina með 26 stig.
FH varð einnig hlutskarpast í karla- og kvennaflokki en þau stig voru reiknuð sér.
FH fékk alls 22 verðlaun í bikarkeppninni; 11 gullverðlaun, sex silfurverðlaun og fimm bronsverðlaun. ÍR kom næst með 21 verðlaun.
FH hirti bikarmeistaratitilinn af ÍR
Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
