Handbolti

PSG skaust inn í 8-liða úrslitin | Ólafur skoraði fjögur og sá rautt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur skoraði fjögur mörk og sá rautt í Bröndby í dag.
Ólafur skoraði fjögur mörk og sá rautt í Bröndby í dag. vísir/afp
Róbert Gunnarsson og félagar í Paris Saint-Germain tryggðu sér í dag farseðilinn í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í handbolta með þriggja marka sigri, 35-32, á Flensburg á heimavelli.

Með sigrinum skaust PSG upp fyrir Veszprém á topp A-riðils en efsta liðið fer beint áfram í 8-liða úrslitin. Aron Pálmarsson og félagar í Veszprém verða því að fara í gegnum 16-liða úrslitin.

Staðan var jöfn í hálfleik, 16-16, en PSG hafði yfirhöndina í seinni hálfleik þótt munurinn á liðunum hafi aldrei verið mikill.

Bogdan Radivojevic minnkaði muninn í 32-30 fyrir Flensburg þegar um níu mínútur voru eftir. PSG gaf þá aftur í, skoraði þrjú mörk í röð og kláraði dæmið. Lokatölur 35-32, frönsku meisturunum í vil.

Samuel Honrubia var markahæstur í liði PSG með átta mörk en Mikkel Hansen kom næstur með sjö. Róbert Gunnarsson komst ekki á blað í leiknum.

Anders Eggert Magnussen og Kentin Mahe skoruðu fimm mörk hvor fyrir Flensburg sem endaði í 3. sæti riðilsins.

Ólafur Guðmundsson skoraði fjögur mörk þegar Kristianstad vann níu marka sigur, 21-30, á KIF Kolding Kobenhavn á útivelli í B-riðli.

Staðan í hálfleik var 13-11, Kolding í vil, en í seinni hálfleik var Kristianstad með öll völd á vellinum og vann að lokum öruggan sigur.

Þrátt fyrir sigurinn komust Ólafur og félagar ekki áfram í 16-liða úrslitin en þeir enduðu í 7. sæti riðilsins og sitja eftir líkt og Kolding.

Auk þess að skora fjögur mörk gekk Ólafur einnig hart fram í vörninni gegn dönsku meisturunum í dag og fékk að líta rauða spjaldið vegna þriggja tveggja mínútna brottvísana.


Tengdar fréttir

Aron rólegur í sigri Veszprém

Aron Pálmarsson skoraði eitt mark þegar Veszprém vann tveggja marka sigur, 27-25, á Wisla Plock í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×