Körfubolti

Carmen Tyson-Thomas hristir vel upp í 1. deild kvenna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmen Tyson-Thomas í leik með Keflavík í fyrra.
Carmen Tyson-Thomas í leik með Keflavík í fyrra. Vísir/Vilhelm
Carmen Tyson-Thomas fór mikinn með Keflavík í Domino´s deild kvenna í körfubolta í fyrravetur og sannaði þar að þar er á ferðinni frábær leikmaður.

Það var því von á góðu þegar Njarðvíkingar sömdu við hana eftir áramót og það er óhætt að segja að Tyson-Thomas sé búin að hrista vel upp í 1. deild kvenna þrátt fyrir aðeins tæplega tveggja mánaða dvöl á landinu.

Carmen Tyson-Thomas hefur nú spilað fimm leiki og Njarðvíkurliðið hefur unnið þá alla með tólf stigum eða meira. Hún er með 34,0 stig, 16,8 fráköst og 6,4 stoðsendingar að meðaltali og hefur skorað 40 stig í síðustu tveimur leikjum.  

Njarðvík er að keppa við KR um annað sætið deildarinnar sem mun gefa sæti í úrslitaeinvíginu við Skallagrím um eitt laus sæti í Domino´s deild kvenna. KR er enn með tveimur stigum meira en Njarðvík en Njarðvíkurstúlkur eiga þrjá leiki inni og þurfa því bara að treysta á sig sjálfar.

Njarðvík var einmitt að spila við KR í gær og það á heimavelli KR-kvenna. Tyson-Thomas var með 40 stig, 17 fráköst og 6 stoðsendingar í 25 stiga sigri, 84-56. Þetta var í annað skiptið sem Njarðvík vinnur KR síðan að Tyson-Thomas mætti í Ljónagryfjuna.

Njarðvík vann 4 af 9 leikjum sínum fyrir komu Carmen Tyson-Thomas og stigatalan var -27 í þeim. Njarðvík er að vinna þessa leiki með Tyson-Thomas innanborðs með 23,4 stigum að meðaltali í leik. Hún hefur því gerbreytt Njarðvíkurliðinu sem er nú til alls líklegt í baráttunni um sæti Domino´s deildinni.

Skallagrímur hefur þegar tryggt sér deildarmeistaratitilinn en eina tap liðsins er einmitt í eina leiknum á móti Tyson-Thomas. Njarðvík vann síðasta innbyrðisleik liðanna með 14 stiga mun, 79-65 og þar skiptu máli að Tyson-Thomas var með 34 stig og 23 fráköst í leiknum.

Næsti leikur Njarðvíkur verður einmitt á móti Skallagrími í Borgarnesi á laugardaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×