Handbolti

Bjarki Már með átta mörk í sigri | Kiel upp að hlið Löwen

Anton Ingi Leifsson skrifar
Bjarki Már í landsleik.
Bjarki Már í landsleik. vísir/anton brink
THW Kiel komst upp að hlið Rhein-Neckar Löwen á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með níu marka sigri á Leipzig, 30-21.

Kiel var mun sterkari aðilinn allan leikinn og leiddi í hálfleik 18-12. Eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda og lokatölur níu marka sigur, 30-21.

Alfreð Gíslason og félagar eru því jafnir Ljónunum á toppi deildarinnar og ljóst að rosalega barátta er framundna, en Domagov Duvnjak var markahæstur hjá Kiel með átta mörk.

Bjarki Már Elísson var markahæstur hjá Füchse Berlín með átta mörk þegar liðið vann sex marka sigur á öðru Íslendingaliði, Bergrischer, 34-28.

Erlingur Richardsson og lærisveinar hans í Füchse voru sjö mörkum yfir í hálfleik, 19-12, og lokatölur sex marka sigur Berlín sem situr í fimmta til sjötta sæti deildarinnar.

Bjarki skoraði eins og áður segir átta mörk þar af eitt úr víti í þeim tíu skotum sem hann skaut að marki. Arnór Þór Gunnarsson skoraði fimm fyrir Bergrischer og Björgvin Páll Gústavsson varði ellefu bolta samkvæmt heimasíðu þýska sambandsins.

Það var Íslendingaslagur í Gummersbach þar sem Gunnar Steinn Jónsson, Gummersbach, mætti Ólafi Bjarka Ragnarssyni, THSV Eisenach, en hvorugur komust þeir á blað.

Gummersbach vann ellefu marka sigur, 32-21, eftir að hafa verið 19-11 yfir í hálfleik. Gummersbach er í níunda sætinu, en Bergrsicher er í sextánda sætinu með 14 stig, einu stigi frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×