Skallagrímur tók stórt skref í átt að deildarmeistaratitlinum með sigri á KR í uppgjöri toppliðanna í 1. deild kvenna í kvöld.
Með sigrinum náði Skallagrímur tólf stiga forystu á toppi deildarinnar en liðið hefur aðeins tapað einum leik í vetur og er með 30 stig.
KR kemur næst með átján stig og gæti náð Skallagrímur að stigum en Borgnesingar eiga þó betri árangur í innbyrðisviðureignum liðanna. Njarðvík, sem er í þriðja sæti, á þó enn tölfræðilegan möguleika á að ná Skallagrímum að stigum. Borgnesingar geta þó tryggt sér titilinn með sigri á Breiðabliki um helgina.
Skallagrímur ætlar sér stóra hluti á komandi leiktíð en í sumar réði liðið Spánverjann Manuel Angel Rodriguez en hann þjálfaði á síðasta ári kvennalið Solna Vikings í Svíþjóð.
Sólrún Sæmundsdóttir skoraði sautján stig fyrir Skallagrím sem var skrefi á undan allan leikinn. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir skilaði flottum tölum fyrir KR en hún var með nítján stig og sautján fráköst.
Tvö efstu liðin mætast svo í úrslitaeinvígi um hvort liðið fer upp í Domino's-deild kvenna en sem stendur er KR með tveggja stiga forystu á Njarðvík, sem á tvo leiki til góða.
KR-Skallagrímur 56-62 (12-20, 20-13, 14-19, 10-10)
KR: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 19/17 fráköst, Perla Jóhannsdóttir 14/10 fráköst/5 stoðsendingar, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 10, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir 6/6 fráköst, Rannveig Ólafsdóttir 5/4 fráköst/5 stoðsendingar, Margrét Blöndal 2, Ásta Júlía Grímsdóttir 0/6 fráköst.
Skallagrímur: Sólrún Sæmundsdóttir 17/5 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 13/5 stoðsendingar, Guðrún Ósk Ámundadóttir 10/4 fráköst/6 stoðsendingar, Hanna Þráinsdóttir 6/9 fráköst, Erikka Banks 5/9 fráköst/3 varin skot, Þóra Kristín Jónsdóttir 5, Ka-Deidre J. Simmons 4, Regína Ösp Guðmundsdóttir 2/5 fráköst.
Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var tekið fram að Skallagrímur hefði tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigrinum í kvöld. Það reyndist ekki rétt og er beðist velvirðingar á þeim mistökum.
